Ristorante Uno Reykjavik


uno1Það er ánægjulegt andrúmsloft á veitingastaðnum Uno við Ingólfstorg í húsnæðinu, sem áður hýsti Victor og Balthazar. Við inngönguna blasir við manni pastagerðarvél og svo tekur maður fljótt eftir hangandi pylsum og kjöti yfir barborðinu, þar sem glittir í bakkanna af grænmeti og ávöxtum eins og á grænmetismarkaði. Maður áttar sig strax á, að hér er kominn staður, sem á engan sinn líka í Reykjavík. Uppskriftin er einföld: Hefðbundinn ítalskur veitingastaður, sem hefur yfirbragð góðrar trattoríu, en heldur sig við seðilinn - (hann má nálgast á heimasíðunni: www.uno.is) - útkoman er klassafínn ristorante.

Seðillinn er eins og best verður á kosið, boðið er upp á aperitivo, nokkra drykki, sem ég geri ráð fyrir að fylgi hefðbundið ítalskt snarl með - (á Ítalíu tíðkast að gefa örlítið snarl með áfengum drykkjum, þar sem hefðin er sú, að fólk drekkur yfirleitt ekki áfengi með mat, - en þá fær maður örlítið smakk með, þegar maður hyggst aðeins panta sér drykk - er mjög vinsælt sem fordrykkur - eða heil máltíð, ef drekka á nokkra drykki! Ég hef hins vegar hef ég ekki kíkt þangað í aperitivo, en geri eflaust við fyrsta tækifæri.) - Þá er boðið upp á nokkra forrétti, antipasti, og svo taka við hinir hefðbundnu fyrstu réttir, primi. Fyrsti réttur, primo, á Ítalíu á eftir antipasto er yfirleitt pasta, jú eða risotto, og er nokkuð gott úrval af pastanu, sem er búið til á staðnum í pastagerðarvélinni Rósu. Það er því alltaf ferskt. Þá er þarna prýðisgott sjávarréttarisotto, sem ég fékk mér í hádeginu (2.490.- kr.), sem var með vænum skammti af blönduðum sjávarréttum og m.a. chorizo pylsum, sem bragðaðist ljómandi vel, þótt pylsurnar ættu e.t.v. frekar heima á Spáni. Skammturinn var vel útilátinn og ég átti í vandræðum með að ljúka honum og hafa mig aftur til vinnu að loknu hádegishlénu. Svo er boðið upp á uxahalarisotto og svo það, sem virðist vera að vera að ryðja sér svolítið til rúms á íslenskum stöðum, hið svokallaða byggottó (en þá er bygg notað í stað hinna hefðbundnu hrísgrjóna). Þá er þarna skemmtilegt úrval af carpaccio á seðlinum. Fyrir utan hið klassíska nautacarpaccio er boðið upp á hangikjötscarpaccio (1.390.- kr.), sem hljómar mjög freistandi, og svo humarcarpaccio (1.490.- kr.), sem ég lagði í í þetta sinn og var ekki svikinn. Ég lét þessa tvo rétti duga svona í fyrstu ferð minni þangað.

Hinn hefðbundni aðalréttur, eins og við köllum, er yfirleitt annar réttur á Ítalíu (já, þrátt fyrir jafnvel aperitivo/snakk og antipasto/forrétt) og er því kallaður secondo. Honum er iðulega skipt í klassíska tvennd, kjöt og fisk. Á kjötseðlinum er boðið upp á naut og lamb og svo kjúkling, sem á að vera grillaður undir heitu hrauni. (Einhver þarf nú að fá nánari útskýringu á því, hvað þar er átt við!) Er svo boðið upp á ítalskan hamborgara með öllu tilheyrandi. Fiskurinn er svo nokkuð hefðbundinn, grillaður lax, saltfiskur og grilluð lúða. - E.t.v. bjóða aðalréttirnir upp á frekari umfjöllun síðar meir, enda má ekki gleyma því, að á seðlinum er boðið upp á óvissuferð, menu a sorpresa (matseðil, sem bregður eða kemur á óvart) - og innifalið í honum er 7 rétta óvissuferð með prosecco í fordrykk (freyðandi hvítvín eða freyðivín), sex réttum og eftirrétti. - Það þarf að skoða þennan matseðil í allra nánustu framtíð.

Skemmtilegur eftirréttarseðill er á staðnum, m.a. skyr panna cotta, sem ég þarf endilega að smakka, og svo ísinn, sem ég vona að þeir geri á staðnum. Það er fátt, sem ítalir eru stoltari af, ef ekki móður sinni, þá er það ísinn þeirra! Ég vona því, að næst, þegar ég líti við, þá bragði ég á Uno gelato eða annarri hvorri gelato-sprengjunni, lakkrís eða kókos.  

Það, sem vekur athygli við lestur seðilsins er hversu gott úrval af Grappa er boðið upp á. (Hingað til, ef ég man rétt, hefur maður varla séð fleiri en tvær til þrjár tegundir af Grappa á stöðunum, en annars er töluvert síðan ég hætti að fara á ítalska staði hér í bænum - ja, eða utan Ítalíu, ef því er að skipta.) Svo er auðvitað boðið upp á staup af alvöru Limoncello, sem er sætur sítrónulíkjör, sem er afskaplega vinsæll eftir góða máltíð - eða fyrir máltíð - ja, eða í raun bara hvenær sem er.

Staðurinn er virkilega skemmtilegur að koma inn á. Upplifunin af barnum með hangandi prosciutto og salami yfir barborðinu, ávextir og grænmetir eins og á markaðnum fyrir aftan þjónana, vínflöskur, pottar, pönnur og ólívuolíukönnur á hillum hingað og þangað gefa staðnum alveg sérstakt yfirbragð. Manni finnst maður velkominn - og á einhvern máta minna þau gamlan ítalíubúa á kunna tilfinningu, maður er einhvern veginn að koma heim. 

Af þessari fyrstu heimsókn að dæma þá virðist staðurinn þaulsetinn. Nóg að gera og mikil læti í eldhúsinu eins og á góðu ítölsku veitingahúsi. Það skemmtilega við staðinn er hvernig hann er innréttaður, en það er opið beint inn í eldhús, þar sem hægt er að fylgjast með kokkunum skella pastanu í sjóðandi vatnið, leggja glóðheitt kjötið á diskana og undirbúa veislu fyrir bragðlauka gestanna.

Það er virkilega þess virði að heimsækja Uno veitingastaðinn - ef ekki einu sinni, þá aftur og aftur! 


Þá sjaldan ... sushi! Og það á kínversku! KUNG FU!

Kung Fu - Brekkugötu 3 - v/Ráðhústorgið á AkureyriJæja, maður fær sér nú reglulega sushi, enda hef ég lengi verið mikill aðdáandi hrás fisks í samhengi við góð hrísgrjón, soja sósu, hvítvínsedik og þessa græna undurs, sem við köllum wasabi. Það var virkilega ánægjulegt að detta inn á nýjan sushistað um daginn, þegar ég var staddur á Akureyri. Eftir að hafa horft á íslenska landsliðið vinna enn eitt afrekið á heimsmeistarakeppninni í handbolta (við erum að tala um riðlakeppnina, sko), þá skottaðist ég yfir Ráðhústorgið á Akureyri á nýjasta stað bæjarins, Kung Fu, sem auglýsir sig sem 'sticks+sushi' stað. Ég vissi ekki hverju ég ætti von á, en vonaðist eftir ágætu sushi til að halda upp á góðan sigur strákanna okkar.

Mér brá! Af hverju enda metnaðarfullir kokkar alltaf á Akureyri?

Á seðlinum var hægt að velja úr mörgum samsettum réttum, bæði sushiplattar og svo blandaðir sticks og sushi plattar, nú fyrir utan að panta sérstaklega ýmsar tegundir af maki rúllum. (Hjá mér vaknaði sérstaklega áhugi á Dragon Kapurimaki- avocado, reyktur áll, vorlaukur og unagi sósa, og svo Spider Kapurimaki - linskelskrabbi, paprika, graslaukur og japanskt majónes - auk þess sem ég á eftir að smakka Kung Fu lax mað kóríander, gúrku, mangó, graslauk og japönsku majónesi og svo Skandinavíu uramaki með reyktum lax, aspas og rjómaosti.) (Ég verð að skjóta því inn, að chili majónesið á staðnum er afbragð!)Ekki er verðið heldur til að svekkja mann, eins og stundum hefur komið fyrir á betri sushi stöðum, en t.d. kostar 10 bita platti af sushi 1.290 kr. Þá er ekki verra að eiga nokkrar krónur eftir fyrir góðan Asahi bjór til að skola kræsingunum niður með. Annars býður staðurinn upp á nokkrar gerðir af hvítvíni, minna af rauðu, eins og gefur að skilja, en er svo með Hakushika sake til að fríska upp á andann. Hvítvínsglas hússins er á 790 kr. og sake-staupið á 590 kr. - Einhvern veginn ímynda ég mér, að það sé jafnvel ódýrara en á börunum, sem telja sig í betri flokki.

Edamamebaunir.

Það, sem vekur mesta lukku á staðnum, er ekki bara gæði matarins og ferskleiki hráefnisins, heldur einmitt - og sérstaklega - það, að hægt er fá gott meðlæti með réttunum, m.a. miso súpur, tempura grænmeti, japanskt kartöflusalat og svo laxa- og túnfiskstartar, sem smakkaðist einstaklega vel. Hins vegar get ég vart leynt hrifningu minni á því, að boðið sé upp á edamamebaunir (sojabaunir, sem maður bítur úr belgnum), en þær eru nokkuð vinsælar á sushistöðum erlendis. Þær hef ég ekki séð á seðlum hér á Íslandi fyrr.

Edamamebaunirnar eru hreint út sagt algjört konfekt! 

Ég er nú búinn að gera mér tvær ferðir á Kung Fu og hefur líkað afskaplega vel við staðinn. Ég viðurkenni það reyndar, að nafnið, sem maður tengir ósjálfrátt kínverskum bardagalistum og munkaklaustrum í Shaolin og víðar, varð hálfpartinn til að gefa mér ranga mynd af staðnum áður en ég kom þangað fyrst - en á móti kemur, að þá er sushi svo sem ekki alveg einbundið við Japan eins og við erum gjörn að telja, það má t.d. fara yfir sögu sushi til að leita upprunans og sjá, að þetta voru ekki bara japanskir sæfarendur og karateiðkendur, sem smökkuðu á hráum fisk með grjónum.Þetta voru ánægjulegar heimsóknir og kokkurinn tók vel á móti manni. Gott og heimilislegt andrúmsloft og skemmtilegur staður. Staðurinn ætti ekki að fara framhjá neinum, sem leggur leið sína norður yfir heiðar, en hann er staðsettur - ja, í raun og veru, við mitt Ráðhústorgið á Brekkugötu nr. 3. Ég óska eigendum staðarins og Akureyringum öllum til hamingju með þennan frábæra stað og vonast til að hann dafni vel þarna í vari milli fjallsins og heiðarinnar.

Ég er strax farinn að hlakka til að fara þangað aftur.


Sorgardagur.

Í dag kveð ég besta veitingastað landsins með miklum trega og söknuði. Engin orð fá lýst þeim kvöldstundum og þeirri upplifun, sem ég hef fengið að njóta þar. Sú hugmyndauðgi, framúrstefna, eljusemi og virðing fyrir íslenskum hráefnum og hefðum í matargerð, sem þar var að finna, verður seint jöfnuð. Það er sjaldan, sem réttur á veitingastað getur fengið mann til að vera gráti næst af gleði, undrun og uppljómun, en hafi einhver nokkurn tímann getað haft slík áhrif með sinni sköpun í matreiðslu, þá er það Friðrik Valur Karlsson. Nú er það treginn, sem dregur fjöður sína yfir sömu strengi í brjóstinu.

Með miklum söknuði en jafnframt miklu þakklæti kveð ég Friðrik V. - en vonast til að hitta þau Öddu og Fredda á ný á betri stað, þar sem sama gleðin mun ríkja, og á móti manni verður ávallt tekið með sama, gamla heimilislega brosinu - einhvers staðar, þar sem maður er ávallt velkominn.

F.V. - Takk fyrir mig! 

 


Langt sumarfrí!

Jæja, þá er maður loksins búinn að hafa uppi á lykilorðinu inn á síðuna og getur farið að birta einhverjar fréttir hérna á nýjan leik, enda kominn ansi langur tími síðan síðasta færsla birtist hérna.

Ætli maður verði ekki eitthvað að fara að færa inn, hvar maður hefur settst að snæðingi undanfarna mánuði og hvað framundan er.

Annars fékk ég góðar kveðjur í dag frá Riccardo Benvenuti, ítalska kokkinum, sem tók þátt í Food & Fun núna síðast (http://www.nonsoche.com) og hann sagði mér, að þess væri ekki langt að bíða, að hann léti sjá sig hér á landi á nýjan leik. Vonandi fær hann að leika sér í eldhúsinu einhvers staðar, þegar það verður . . . a.m.k. frétti ég af einum meistarakokkinum okkar, sem gerði góða ferð til hans ekki alls fyrir löngu . . . 

Þá er bara að byrja að dusta rykið af minnisblokkinni og fara að rifja upp einhverjar þær veislur, sem maður hefur skellt sér í upp á síðkastið. 

Þangað til . . .  

 


Smáréttir og hádegissnarl - Vox | Hereford | Tapasbarinn

Það er oft þegar svengdin gerir sig heimakomna hjá manni, þá dettur maður inn á staði, sem maður bjóst undir öðrum kringumstæðum ekki við að líta inn á, nema e.t.v. við annað tilefni. Síðasta vika hefur einmitt verið þannig . . .

TapasbarinnÉg stakk aðeins inn nefi (óvart) á Tapasbarinn í síðustu viku og ætlaði mér nú bara rétt að stoppa stutta stund og smakka sjávarrétta-paelluna, sem þeir bjóða upp á þar, en nei! - Áður en ég vissi af var ég lagður af stað í óvissuferð, sem virtist engan enda ætla að taka. Ekki má þó skilja það svo, að ferðalagið hafi verið leiðinlegt - síður en svo! Það er töluvert langt síðan ég leit við á Tapas síðast og því var ágætt að fylgjast aðeins með, þó svo ekki hafi verið mikið um áherslubreytingar. Tapas er alltaf viðkunnanlegur staður, ekki í dýrari kantinum og skemmtilegur heim að sækja, ef maður ætlar að eiga notalega kvöldstund með fólki yfir mat og drykk til að spjalla um daginn og veginn. Þetta var ágætis ferðalag og í raun ekki svo dýrt, þegar maður hugsar um það, sem boðið var upp á. Óvissuferðin er á undir 4.000.- kr. og felur í sér 7 tegundir af blönduðum réttum ásamt fordrykk og eftirrétti. Fyrir tvo þá er þetta rússíbanareið um heila 14 rétti! - Hentar kannski ekki fyrir stutta fundi, en fín tilbreyting, ef maður vill slaka á og í lok dags yfir fjölbreyttum mat. Til að byrja með var boðið upp á léttan og freyðandi fordrykk. Í þetta sinnið var boðið upp á lamb með lakkríssósu (í raun var anísinn aðallega úr Sambuca, og því fannst mér sósan ekki alveg standa undir því að kallast lakkríssósa), reyktan lunda, sem var mjög góður, með, að ég held, cumberland sósu, svo spjót með, ef ég man rétt döðlum, og hörpu vafða beikoni, risarækju á spjóti í grænni sósu (basil), rækjur (karrý? tikka? - man það ekki), naut með pestó, sem var í raun ágætt (ég var svona nokkuð ánægður með pestóið, en það er svo sjaldgæft að maður lendi á góðum basil hér á landi, en þessi var svona með þeim skárri, sem maður finnur hérna), risahörpu, piripiri kjúklingavængi með gráðostasósu (æi, búinn að fá nóg af slíkum bras-barréttum), kálfakjöt, sem reyndist ágætt, kjúklingaspjót, meira naut, eggjakartöfluböku, skötusel vafinn í serrano-skinku og saltfisk, sem var alveg ágætur (úr ofni, var samt ekki alveg viss með tómatbragðið). . . Ég hreinlega man ekki alla réttina, en mig minnir að þarna hafi verið einhver fiskréttur með pestó, sem ég var svolítið hrifinn af. Í lokin var svo súkkulaðikaka og kaffi. Ég fékk hins vegar fallega skreyttan disk með marenstoppum, rjóma ávaxtahlaupi og blönduðum ávöxtum, sem var bara fín sárabót fyrir að geta ekki bragðað súkkulaðikökuna. Í raun er Tapasbarinn frekar þægilegur hversdagsstaður og gott að eiga þar skjól, þegar ekki stendur svo stórt til, þó ég efist ekki um að stórar veislur gætu verið þrælskemmtilegar í baksalnum. Ég var svona nokkuð ánægður með útkomuna, en hún var alveg í anda þess, sem ég bjóst við. Maður veit að hverju maður gengur, þegar maður stígur inn á Tapas. . .

HerefordÞað var svolítið skrýtin atburðarás, sem varð til þess, að ég endaði í hádegismat á Hereford-steikhúsi á Laugaveginum. Við vorum að leita okkur að þægilegum hádegismat og þar sem við gengum framhjá Vín og skel, þá blasti við Herefordsskilti úti á gangstétt og þar sem svo langt er um liðið síðan ég kíkti við þar og fékk ágætis naut hjá Guðna, þá var ákveðið að kíkja upp. Hádegisseðillinn lítur bara nokkuð vel út og verðinu er stillt í hóf. Fyrir valinu varð annars vegar hádegissteik með hvítlaukssmjörklípu, bakaðri kartöflu og glóðuðu grænmeti. Hún var ágæt, frekar meyr og ljúf, en hefði mátt vera aðeins rauðari fyrir minn smekk. Hins vegar pantaði ég mér nauta-ribeye, sem var borið fram með sama meðlæti. Mér var boðið að velja milli bernaise- eða piparsósu og ég valdi piparsósuna, þó svo að sósu ætti nú varla að þurfa, ef kjötið er nógu gott. Ég varð reyndar fyrir vonbrigðum með kjötið. Í fyrsta lagi var kjötið aðeins of vel feitt - ekki að skilja, að ég hafi neitt á móti vel öldum kálfum, en þegar það er farið að hafa áhrif á upplifunina af matnum, þá setur það svolítið strik í reikninginn. Í öðru lagi hefur steikingin eitthvað farið úrskeiðis, því öfugt við það, sem gilti um hádegissteikina, þá reyndist ribeyið það rautt í miðjunni að meira að segja ég gat fundið að því. (Og þá er nú mikið sagt!) Svo var kjötið með einhvers konar sinneps-hunangs-gljáa, sem hefði í raun alveg mátt sleppa, hefði kjötið staðið undir því - og ég furðaði mig á því, hvers vegna boðið væri upp á sósu með því, þar sem gljáinn hefði nú átt að geta staðið fyrir sínu. En þannig var það. Mér hefur alltaf þótt ágætt að geta litið inn á Herefords til að fá mér góðan kjötbita, yfirleitt er ekki svo dýrt að kíkja þangað og svo er vín hússins yfirleitt ágætt, eins og það var í þetta skiptið. Það skyggði hins vegar á þessa hádegisstund, hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum með kjötið - enda er kjötið aðalástæðan fyrir því að maður kíki við á Herefords! Hvort sama megi segja um kvöldseðilinn veit ég svo sem ekki, en ég vona að þetta hafi bara verið einsdæmi, og að hádegisseðillinn eigi eftir að koma vel út í sumar. - Kannski að maður kíki betur á það, þegar þar að kemur . . . ?

Þegar ég kom út af Hereford, rakst ég á Guðna, gamlan vin og skólafélaga, sem er margreyndur Hereford-kokkur, en hann var að fást við að koma upp skilti fyrir Vín og skel í næsta húsi. Ég spjallaði aðeins við hann, og þá var hann nýbúinn að færa sig yfir í næsta hús og við ræddum aðeins hvað V&S ætla að bjóða upp á í sumar . . . Ætli það verði ekki skammt þangað til ég slái á þráðinn til hans, enda er maður farinn að sleikja aðeins út um við tilhugsunina um ostrurnar, hríseyjarkræklinginn og öðuskelina, sem verða á seðlinum á þeim bænum í sumar.

voxÁ endanum leit ég svo við á Vox. Það er merkilegt hvað allir staðirnir eru farnir að höfða til manns, heimtandi það, að nýju seðlarnir séu eitthvað, sem enginn sælkeri megi ekki láta fram hjá sér fara. Svo ég lét til leiðast. Vox-Bistro er mjög fínn, það er þægilegt að sitja í rólegheitunum við barinn og geta átt fund í hádeginu - og ekki skemmir kunnátta kokkanna fyrir! - Ég hef alltaf verið á leiðinni að kíkja, en þá í kvöldseðilinn, en í þetta sinnið, þar sem ég átti þarna stund með félaga mínum, þá gat ég ekki staðist mátið og heimtaði að við fengjum okkur nú svona eins og einn rétt eða svo - og það varð úr. Það verður ekki af þeim tekið, að metnaðurinn er mikill í eldhúsinu og umtalið verðskuldað, þegar Vox er annars vegar. Ég pantaði mér andalæri af hádegisseðlinum. Félagi minn fékk sér hins vegar blandaða síld, sem ég bara rétt smakkaði á, þó ég hafi verið hrifinn af bakkanum, sem síldin var borin fram á. Öndin kom á fallegum djúpum diski, klassísk nútímaútsetning. Kjötið var milt og mjúkt og mjög bragðgott. Á lærið hafði verið stráð rifnum appelsínuberki, sem kom nokkuð vel út. Með lærinu kom svo blandað salat, klettasalat, mangó, tómatur, og furuhnetur og sesamfræ - mér fannst sem ég hafi séð þarna líka brot úr valhnetum og pecanhnetum. . . Þegar ég smakkaði salatið fannst mér það aðeins of "löðrandi" - eins og olían ogAndarlæri - Vox eitthvað appelsínubragð, sem ég kveikti ekki alveg á hvað var, hefði óvart runnið úr flöskunum yfir salatið á disknum mínum . . . Þegar ég svo síðar smakkaði á sósuröndinni, sem var til skreytingar umhverfis kringlóttan diskinn, þá grunaði mig að appelsínubragðið væri nú bara úr einföldu appelsínuþykkni - gott ef ekki bara Egils-appelsínuþykkni. Þótt hugmyndin hafi verið góð, hefði aðeins mátt vinna betur með appelsínuþykknið og e.t.v. minnka magnið, sem hellt var yfir salatið - sumir vilja halda bragðinu af salatinu líka! Það hefði t.d. mátt þynna það aðeins og minnka sætuna, jafnvel blanda það smá soði? - enda var soðið í botninum ágætt með þessum appelsínukeim. Þrátt fyrir þetta var ég mjög sáttur við réttinn - tilvalinn hádegisréttur með tveggja manna tali - og umhverfið eins og best verður á kosið - rólegt og þægilegt, engar truflanir. Eftir þetta, held ég að það styttist óðum í að maður fari að panta sér borð og fái sér almennilega veislu . . .

Hins vegar er hugurinn nú við föstudagskvöldið og Guy Lassausaie á Listasafninu, Hótel Holti!


Spennandi helgi á Hótel Holti! - Guy Lassausaie

Guy LassausaieJæja, það er spennandi helgi fram undan á Listasafninu um helgina. Von er á Guy Lassausaie, sem ætlar ásamt Friðgeiri Inga Eiríkssyni, einum snjallasta kokki landsins, að töfra fram gómsæta rétti, en hann hefur völdin í eldhúsinu á veitingastað sínum í Chasselay rétt utan við Lyon í Frakklandi, sem hefur haldið í eina Michelin-stjörnu a.m.k. síðustu tvö ár. Hótel Holt og Friðgeir eru sannarlega framarlega í flokki, þar sem þetta er í annað sinn á skömmum tíma, sem boðið er upp á matreiðslu franskra Michelin-kokka á Listasafninu, en skemmst er að minnast komu Jean-Yves Johany í mars. Koma þeirra er í tengslum við Franskt vor - Pourquoi pas? sem hefur verið undanfarna mánuði, og má segja að Guy fái að enda þessa frönsku daga með mikilli veislu.

Seðillinn, sem boðið verður upp á, er eftirfarandi:

 Lystaukar

Krabba og lárperukaka með favabaunum

Timian og sítrónumarineruð lúða  ásamt hörpuskelstartar

Beaujolais  ískrap

Ofnsteiktur  mjólkurkálfur í sítrónugrasi, með grænertumauki og svartrótar confit 

Ostur “Cervelle de canut”

Keilulaga Chartreuse ís með rauðum ávöxtum “compotée”

 

Það verður alla vega spennandi að sjá hvernig til tekst!


Björt framtíð! - Kokkakeppni Grunnskóla Reykjavíkur

Dómarar við dómgæsluna.Það var mikið um að vera uppi í MK í dag. Þar fór fram í fyrsta sinn Kokkakeppni Grunnskóla Reykjavíkur, en segja má, að hún sé afleiðing þeirrar miklu grósku í matreiðslu- og heimilisfræðum, sem verið hefur í Rimaskóla, en hann hefur staðið fyrir kokkakeppni í sínum herbúðum síðustu ár. Nú hefur hún verið gerð að árlegri keppni milli grunnskólanna í Reykavík, og ég vona svo sannarlega, að hún verði haldin fyrir landið allt innan tíðar.

Það var margt um manninn og mikil eftirvænting hjá krökkunum. Af matseðlunum mátti sjá, að mikill metnaður var lagður í matargerðina. Þarna brá fyrir alls kyns fiskréttum, fylltum mexíkóskum "pönnukökum," humar, kjöt- og kjúklingaréttum. Nemendurnir voru látnir skreyta borð og var virkilega gaman að sjá hugmyndaflugið hjá þeim, m.a.s. var eitt borðið skemmtilega skreytt ýmsum ávöxtum, þar sem borinn var fram steinbítur með Hawaii-sósu (m.a.s. voru stelpurnar, sem elduðu með Hawaii-borða um hálsinn sem hálsmen).

Það kom virkilega á óvart að sjá, hversu mikil gróska er í matreiðslukennslu og heimilisfræðum í grunnskólunum, og ef þetta er matreiðslan hjá yngri kynslóðinni, þá held ég, að við matgæðingar búum við bjarta framtíð, sem við getum hlakkað til!

Ostafyllt, beikonvafin kjúklingabringaÁ boðstólum voru fínir réttir og m.a.s. réttir, sem maður bjóst eiginlega ekki við, að þrettán til fimmtán ára unglingar væru að elda. Ég bjóst helst við því, að á boðstólum væru réttir, sem þessi hópur sækti í, já, kannski meiri kjúklingur, súpur og brauðréttir, pasta og jafnvel pizzur - en það var ekki. Reyndar voru tveir kjúklingaréttir á borðum, báðir vel frambærilegir, og ein súpa. Hins vegar mátti sjá nokkuð, sem maður hefði haldið frekar framsækna matargerð hjá þessum aldurshópi, - innbakaðar lambalundir í smjördeigi, humar með rækjusósu, ostafyllta og beikonvafða kjúklingabringu og innbakaðan lax með peru- og eplamauki svo dæmi séu tekin.

Keppnin var vel skipulögð og MK á hrós skilið fyrir að veita aðgang að alvöru eldhúsi og hýsa keppnina. Í keppninni er fylgst með krökkunum vinna, en á meðan mega hvorki foreldrar né kennarar aðstoða þau og þau verða alfarið að spjara sig sjálf. Reglurnar eru í raun einfaldar: tveir til þrír nemendur þurfa að elda rétt fyrir einn á klukkutíma; allt hráefnið má hins vegar ekki kosta meira en 1.000.- kr. Gera má þó ráð fyrir að bragðið eitt hafi ekki ráðið úrslitum, enda var borðbúnaði og skreytingum, samstarfi þeirra og skipulagi í eldhúsi, uppsetningu á disk og framsetningu veitt athygli, auk þess sem menn þurfa, jú, að skila af sér hreinu vinnuborði! Dómgæslan var svo í öruggum höndum, og ekki óvanir dómarar þar á ferð úr matreiðsluheiminum. Formaður dómnefndar var svo sjálfur Ragnar Wessmann.

Bordskreyting HamraskólaÉg fékk að fylgjast með æfingu hjá Hamraskóla fyrr í vikunni, enda litla frænka mín í hópnum. Þau, Júlíanna Ósk, Ísak og Íris, höfðu komið sér fyrir í eldhúsinu heima hjá henni og voru að fara yfir skipulagið á vinnunni og minnislistann yfir aðferðir og áhöld. Það var virkilega gaman að fylgjast með þeim, þau voru einbeitt og metnaðargjörn og dugleg að skýra fyrir mér matseðilinn og eldamennskuna á meðan ég stóð og fylgdist með klukkunni. Þau skiptu verkum á milli sín og þegar ég sagði þeim að byrja, var hver kominn á sína vinnustöð og allt gekk snurðulaust fyrir sig - fyrir utan örlítið óhapp með sósuna. Þau voru búin að klára allt vel fyrir tilskilinn tíma og gengu vel frá. Borðbúnaðurinn var einstaklega fallegur og stílhreinn, laus við allan íburð - örlítið "mínímalískur." Maturinn bragðaðist svo prýðilega. Ég vonaði innilega að þeim gengi vel. 

Júlíanna Ósk, Íris og ÍsakOg það rættist! - Þau stóðu spennt og biðu eftir úrslitunum og uppskáru vel og fengu þriðja sætið! Verðlaunin, sem veitt voru, voru, já, bara þrælfín - alla vega hefði ég verið hæstánægður með verðlaunin, sem veitt voru fyrir fyrsta sætið! - Í þriðja sæti lenti s.s. Hamraskóli með ostafyllta, beikonvafða kjúklingabringu með piparsósu. Hún var borin fram með salati með steiktum furuhnetum, kokteiltómutum (+salt, olía og balsamedik), að ógleymdum ofnbökuðum rósmarínkartöflubátum, - og hlutu að launum gjafabréf frá Kaupþingi að upphæð 3.000.- kr. og svo gjafabréf, þar sem hópnum ölllum var boðið að borða á Galileo ásamt kennaranum sínum.

Í öðru sæti lenti svo Álftamýrarskóli, sem bauð upp á "Smálúðuævintýri" (eða kannski smá-lúðu-ævintýri?). Þegar ég skoðaði diskinn hjá þeim, þá þótti mér hann einstaklega fallegur og gæti vel sómað sér á veitingastað. Því miður bragðaði ekki á honum - og sé eftir því! Þau fengu að launum gjafabréf frá Kaupþingi að upphæð 5.000.- kr. og gjafabréf á Silfur. (Ekki slæm verðlaun það!)

Í fyrsta sæti var svo Rimaskóli - og kom kannski ekki á óvart! Strákarnir, Kjartan, Sindri Hrafn og Arnar, buðu upp á innbakaðan íslenskan lax með peru- og eplamauki, borinn fram á salatbeði með matshiso dressingu. Með þessu voru svo fallega raðaðar dverggulrætur og dvergsperglar í sólargeisla út frá fiskinum. Þeir voru vel að sigrinum komnir, og m.a.s. skiptu þeir um rétt frá því þeir sigruðu keppnina í Rimaskóla ekki alls fyrir löngu, en þar voru þeir með kjötrétt, skilst mér. Þeir hlutu vegleg verðlaun, fyrir utan gjafabréf frá Kaupþingi, hlutu þeir ferð til London ásamt kennara, þar sem einhver hvíslaði því að mér, að þeir fengju að hitta Jamie Oliver og fá sér snæðing. Dágott það! Svo var auðvitað gefinn farandbikar til keppninnar, sem keppt verður um að ári.
- Til hamingju Rimaskóli!

Þegar keppnin var búin og flestir komnir aftur inn í eldhús að ganga frá, þá stalst ég til að spjalla við strákana úr Rimaskóla og smakka hjá þeim. Laxinn var ljúffengur og salatið frábært - enda sögðust þeir sjálfir hafa unnið á salatinu og dressingunni, granateplin og sérstaklega matsuhisa-sósan hefði verið leynivopnið, sem gert hefði gæfumuninn. Ég óskaði þeim til hamingju - og fékk að "stela" frá þeim uppskriftinni.

Þessi keppni var í alla staði vel skipulögð og stórskemmtileg og það var gaman að sjá allan þennan metnað og gæðin voru svo ekki af verri endanum. Ég hlakka bara til að ári!


Friðrik V - Akureyri

Friðrik VÞað var heilmikil veisla nú um síðustu helgi. Við brugðum okkur nokkur norður í land á ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri og stefnan var tekin á Friðrik V á föstudagskvöldið. Við lögðum af stað á föstudagsmorgun til að vera komin í tíma. Undirbúningurinn hafði verið þó nokkur, Halli var búinn að setja sig í samband við Friðrik nokkrum vikum áður og einhverjir af ráðstefnugestunum voru væntanlegir, - Mike, prófessorinn minn og mikill matgæðingur, vildi alls ekki missa af þessu.

isl_kjsÁ norðurleiðinni var komið við á Brú, enda þykir mér gott að fá mér ekta íslenska kjötsúpu á leiðinni norður - þó ég hafi nú fengið þær tvær í ferðinni. Kjötsúpan er e.t.v. eitt af okkar betri réttum, sem við gætum hæglega gert að okkar nýja íslenska skyndibita, en merkilegt nokk, þá þykir Íslendingum jafnan betra að fá sér pylsu með öllu eða þjóðvegahamborgara eða pizzusneið þegar þeir eru á ferðinni. Það mætti leggja meira upp úr kjötsúpunni finnst mér, góður matur og tilvalinn skyndibiti! (Svo verður hún nú bara betri og betri eftir því sem hún er hituð upp oftar!)

Við renndum í hlað hjá Friðriki V, þegar norður var komið og kíktum inn og tilkynntum komu okkar og hvað við yrðum mörg. Friðrik og Adda heilsuðu bæði upp á okkur og sýndu okkur borðið, sem þau höfðu sérstaklega útbúið fyrir veisluna. Friðrik tók sér tíma til að líta upp úr pottunum og gæta að því að einn úr hópnum væri með glútenóþol og sagðist ætla að taka tillit til þess. Svo skellti hann sér aftur inn í eldhús og við komum okkur fyrir í húsi í bænum, þar sem við ætluðum að gista, skelltum okkur í bað og svo í betri fötin.

Við gengum inn á staðinn á mínútunni átta, en þá var enn von á fleiri gestum í hópinn okkar, svo við skelltum okkur á Kaffi Akureyri á neðri hæðinni í fordrykk. Valið stóð milli Campari-Soda eða Mojito. Svo allir yrðu sáttir, þá stakk ég upp á Mojito, sem eftir á að hyggja voru e.t.v. mistök. Mojito-inn var borinn á borð allt of sykraður, mig grunar að of mikill sykur og jafnvel Sprite hafi flotið með í glasið. Það voru einungis 1-2 klakar á floti innan um tvær litlar lime-sneiðar, sem hafði verið stungið ofan í glasið eins og upp á punt, og manni leist ekki betur á myntuna en svo, að hún hafi komið úr kryddstauk, þurrkuð og mulin, og flaut ofan á drykknum. Við létum það ekki á okkur fá, heldur bruddum sykurinn og biðum eftir hinum gestunum.

Adda í koníaksstofunni/vindlaherberginuStuttu síðar kom seinna hollið; allt í allt vorum við sjö, sem röltum upp stigann og inn í salinn. Við vissum ekki einu sinni hvað biði okkar, heldur höfðum pantað Gourmet-seðilinn hjá Friðriki, þar sem hann ræður öllu innihaldi, allt eftir því hvað er ferskast til hverju sinni. Það olli okkur því örlitlum heilabrotum með val á víni, en vínseðillinn hjá Friðriki er frekar góður miðað við það að vera ekki mjög langur. (Til hvers svo sem að lengja listann með ódýrari og vínum, sem e.t.v. henta ekki matreiðslunni?) Adda kom og bauð okkur upp á sérstakan fordrykk staðarins, óáfengan, með rabarbara og eplum. Græn matarepli voru svo snyrtilega skorin út í glasið. Hann var einstaklega hressandi og bætti mikið úr vonbrigðunum með Mojito-inn á neðri hæðinni. Merkilegt að nýta saman rabarbara og epli til að hreinsa bragðlaukana og undirbúa matarlystina, það kom virkilega vel út!

Á borðunum var vatn og klakar í skál, tapenade úr sólþurrkuðum tómötum, blönduðum ólívum,Friðrik V ferskum kryddjurtum og ólívuolíu, góð stálhnífapör og sterk tauþurrka. Umgjörðin var fullkomin, og það var eins og vitað hefði verið fyrirfram hvaða drykkir yrðu pantaðir, glasauppsetningunni var ekki haggað. Boðið var upp á þrjár tegundir af brauði, sem ég missti af, enda fékk ég sérstakar glútenlausar bollur úr maís. (Þá sjaldan, sem maður fær slíka þjónustu, en maður er jafnan vanur því að þurfa að sleppa ákveðnum þáttum matarins, þegar staðirnir geta ekki tekið tillit til fæðuóþols. Ég var feginn því, að við hefðum komið við fyrr um daginn til að láta vita, og um leið þakklátur fyrir það, að Friðrik hafi hugsað til mín við útfærslu réttanna, eins og síðar átti eftir að koma í ljós.)

Staðurinn er á afskaplega hentugum og þægilegum stað og aðgengi er gott - að staðnum. Hins vegar getur stiginn verið fólki erfiður, en í þessu húsi er held ég ekki lyfta. Fyrir tveimur árum síðan, þegar verið var að ákveða stað til að kíkja á, þurftum við að hverfa frá Friðriki V, þar sem ein úr hópnum á erfitt með stiga. Það er þó von til að úr því rætist, þegar staðurinn flytur á nýjan stað nú í sumar, í gilið á móti gamla Hótel KEA. Biðin eftir F.V hefur því verið all löng hjá manni. Ég var hins vegar mjög ánægður með að hafa loksins haft tækifæri til að líta inn. Salurinn er ekki svo stór, en tekur þó ca. rúmlega 50 manns í sæti. Ég tók snemma eftir því að mikið var að gera, það var allt fullt og ég hélt til að byrja með að skvaldur mundi trufla okkur, en það varð þó ekki. Það ætti kannski frekar að vera manni meira tilhlökkunarefni en hitt að vita af því að svo margir sækja staðinn. Það reyndist einmitt vera svo!

Friðrik útskýrir réttina og hráefnið.Mike skaust fram í eldhús og fann út úr víninu, við skyldum byrja á hvítu og fara svo út í rautt. Við fengum því tvær flöskur af Suður-Afríkana, Robertson Winery - Sauvignon Blanc 2004. Það var frekar ferskt, en í þurrari kantinum. Það hentaði reyndar vel því, sem beið okkar. Stuttu síðar kom Friðrik fram og tilkynnti okkur ferðalagið, við ættum fyrir höndum heimreisu og skyldum byrja í Japan. Meðan Friðrik stóð og fór yfir réttina og útskýrði hráefnið, var borið fyrir okkur þetta dýrindis sushi. Friðrik V byggir á Slow-food hugmyndinni og reynir eftir fremsta megni að nýta það hráefni, sem er til í héraðinu, en Eyfirðingar eiga mjög svo mikið af góðu hráefni, m.a. benti Friðrik á, að Norðlenska væri með eina sláturhúsið, sem uppfyllti þá staðla ogFriðrik V - sushi kröfur, sem gerðar eru í Ameríku, til að koma kjöti þangað á markað. Í sushi-inu var m.a. reyktur lax, saltfiskur, grilluð paprika, skötuselur, reyktur silungur og bleikja, ef ég man rétt, og svo þang með sesamfræjum, sem frá Brúnastöðum í Eyjafirði. Skemmtileg útfærsla. Sushi-ið var afskaplega gott og ferskt og skemmtileg byrjun á heimsreisunni. Fiskurinn var afar góður og paprikan fannst mér hitta beint í mark. Þetta var borið fram á litlum bakka, alls 5 bitar, svo var soya sósa, engifer og wasabi á öðrum endanum og á hinum, sakhe, sem við áttum að enda á - vel volgt og mjög bragðgott. Bitarnir voru smáir, en mjög vel útfærðir og hnýttir saman af mikilli natni. Maturinn var greinilega gerður af mikilli nákvæmni, fagmennsku og umhyggju. Þangið kom skemmtilega vel út, fiskurinn var mjög ferskur og paprikan fannst mér vera ómótstæðileg.

Friðrik V - saltfiskurÞví næst fórum við til Pórtúgal. Saltfisksuggi var borinn á borð í djúpum diski. Friðrik minntist á, að þetta væri e.t.v. ekki sá hluti þorsksins, sem við nýttum sem skyldi, en þarna leynist góður biti undir ugganum. Framsetningin var stórskemmtileg, ugginn stóð upp úr disknum eins og mastrið á skipinu, sem maraði þarna í ólívuolíu innan um ólívúr og þurrkaða íslenska tómata. Hann sagði að þau þurrkuðu þá reyndar sjálf. Þrátt fyrir kynni mín af íslenskum tómötum, almennt séð, - og það, sem ég gæti nú sagt um gæði þeirra, - þá voru þessir frekar góðir, og geta vel staðið jafnfætis þeim erlendu - alla vega þeim, sem hingað eru fluttir inn. Saltfiskurinn var svo velt upp úr ítölsku hveiti (semolino duro) og steiktur. Sumir höfðu á orði, að þetta væri besti saltfiskur, sem þau höfðu smakkað. Minn var hins vegar soðinn og hafði Friðrik haft mínar þarfir sérstaklega í huga, þegar hann hefur útbúið þennan rétt. Ég veit reyndar ekki, hvort ólívurnar hafi verið steinaðar á staðnum, en það er fátt, sem toppar þá tómata, sem saltfiskurinn hvíldi á. Þrátt fyrir að hafa ekki getað bragðað á þeim steikta, þá hugsa ég, að þessi útfærsla hafi ekki verið síðri.

ÞúsundbragðasúpanFrá Portúgal flugum við yfir til Tælands í súpu. Súpa hinna þúsund bragða ilmaði á ferköntuðum disknum fyrir framan okkur, og Friðrik kom og sagði okkur betur til. Gulleit skelfiskssúpa með þeyttri kókosmjólk beið okkar. Það hljómaði eins og öllu hafi verið tjaldað til í kryddum í súpuna, engifer, karrý, þúsundbragðasúpan frá Tælandikóríander, túrmerik, sítrónugras, mangó o.s.frv. o.s.frv. . . . allt sem nöfnum tjáði að nefna! Það mátti vel skilja, að þúsundbragðasúpan stæði undir nafni. Hún virkaði fyrst örlítið sterk, en hafði svona milt og kannski sætt eftirbragð. Hún var örlítið rjómakennd í fyrstu, en þá kom þessi sterki keimur en svo þetta milda eftirbragð. Sætan settist á tunguna, en sterka kryddið tók aðeins í aftari efri góminn og svo aftan í hálsinn - mann grunaði einna helst engiferið, jafnvel karrýið um þessa leikfimi, nema þarna hafi verið einhver rauður pipar? Svo var hún með ýmsu góðgæti, sérstaklega má minnast á hríseyjarkræklinginn góða, en hann er alltaf afar ljúffengur. Súpan kom skemmtilega á óvart og var einmitt góður endir á sjávarréttaferðalaginu, og undirbjó okkur vel undir kjötið, sem við áttum í vændum.

Rabarbarasorbet með Þá var tími til kominn að líta á rauðvínið, sem Mike hafði valið, en þar tók hann okkur til Chile - Morandé - Vitisterra - Syrah - 2002, frá Maipo-dalnum. Það létu allir vel yfir víninu, og Ítalinn, sem sat með okkur, Pierluigi, sem við kölluðum vínsérfræðinginn á svæðinu, var afar ánægður með valið. Mike er nú svo sem enginn aukvisi þegar kemur að víninu heldur, það má alltaf treysta því, að hann velji það, sem betur bragðast . . . Á sama tíma og vínsmakkið fór fram, fengum við "munnskol" - rabarabarasorbet í hvítvínsglasi með grænu "popprocks," sem var skemmtileg viðbót. Því var reyndar haldið í skefjum, en síðast þegar ég rakst á það, var það ofnotað - á Food & Fun núna síðast. Sorbetinn hreinsaði bragðlaukana og kom okkur í stellingar fyrir næsta rétt, aðalréttinn.

Friðrik Valur að útskýra réttinaÞá var komið að leynigesti kvöldsins, kjötréttinum. Friðrik V býr svo vel að hafa eins og eitt stykki Roner inni í eldhúsi, og er ófeiminn við að nota hann. Það mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar. Á borðið kom þetta ilmandi nautakjöt, tenderloin, frá Hilmari á Leyningi í Eyjafirði, og Friðrik hafði vafið það inn í eyfirska hráskinku (prosciutto), pakkað í lofttæmdar umbúðir og lét liggja í Ronernum við 62°C í fjóra tíma. Þannig varðAðalrétturinn - kjöt kjötið eldað í gegn, en tapaði engum eiginleikum sínum. Það var eins meyrt og það getur orðið. Salt- og skinkubragðið skilaði svo líka skemmtilegum keim í kjötið. Það var virkilega gómsætt og lék við bragðlaukana. Með þessu bar hann fram gulrætur og aspars, og svo litla skál með kartöflusoufflé með ferskum kryddjurtum og kartöflum, sem komu frá pabba hennar Öddu. Sósan var svo ekta, Barolo rauðvín soðið niður með soðinu af kjötinu og örlitlu salti, - Friðrik sagðist ekki geta gert sósuna nema með ýmist Barolo, Barbera eða Barbaresco! Ef það kallast ekki hin fullkomna sósa, þá veit ég ekki hvað, - að staður noti ekki bara næsta beljuvín, Aðalrétturinn - fiskurheyrir, held ég, bara til undantekninga. Menn létu vel af kartöflunum og sérstaklega sósunni. Mér þótti svo sósan og kjötið ná að mynda þarna hið fullkomna hjónaband. - Friðrik tók svo tillit til þess, að einn úr hópnum borðar ekki kjöt og kom með bleikju, ef ég man rétt, sem féll vel í kramið - og besti réttur, sem viðkomandi hafði smakkað. (Þrátt fyrir að hafa fengið örlítinn bita, þá var hugurinn annars staðar, þ.e. við kjötið.) 

Ég hélt hreinlega, að það væri ekki hægt að gera betur en þetta - ég komst fljótt að því, að ég hafði rangt fyrir mér.

Næst brugðum við okkur til Evrópu - Créme Broulet þekkja nú flestir, en hér notaði Friðrik íslenskt skyr í stað rjóma, stjörnuanís, mjólkursoðið fjallagras og örlítinn sykur. Svo unnið með hefðbundnum hætti, að teknu tilliti til hitastigsins upp á skyrið; sykur og svo flamberað til að fá sykurinn til að karamellast ofan á öllu saman. Það, sem gerði réttinn svo skemmtilegan, er að hann var matreiddur og framreiddur í eggjaskurn - Frábær hugmynd! Útlendingarnir voru ekki alveg með á hreinu hvað íslenskt fjallagras væri, svo þeir fengu örlítinn "mosa" í skál til að skoða. Ég verð að viðurkenna, að hugtakið "Skyr-Broulet" greyptist í hugann í þessari ferð, og var á allra vörum næstu daga. Ég verð að segja, að ég geti hreinlega ekki beðið eftir því að smakka aftur.

"Skyr-Broulet" er besti eftirréttur, sem ég hef nokkurn tímann bragðað!

Súkkulaðibúðingur og ísÞví næst kíktum við til Ítalíu, nánar tiltekið til Brá á Norður-Ítalíu. Við fengum súkkulaðibúðing, sem þó virkaði eins og hann hefði verið bakaður með hveiti, en svo var þó ekki, egg, smjör, rjómi, mjólk, sykur og svo íslenskt 70% súkkulaði. (Friðrik benti svo á, að uppskriftina væri að finna á heimasíðunni, þó svo að fjöldatalan væri e.t.v. vitlaus. - Miðað við bragðið og af samanburði við uppskriftina, þá mætti segja, að þetta væri svona hæfileg uppskrift fyrir einn!) Með þessu var svo þessi fíni eyfirski mjólkurís, stunginn með súkkulaði merktu staðnum.

Í heildina litið var þetta stórkostlegt ferðalag. Allir voru vel sáttir og mettir. Eftir matinn brugðum við okkur í koníaksstofuna, þar sem okkur var boðið að bragða á brandý frá Torres, hvítvíni og hinum eyfirska "kalda," auk þess, sem Friðrik á gott safn af Grappa, sem hann leyfði mér að bragða á. Hluti hópsins var orðinn þreyttur eftir ferðalagið - enda höfðum við setið að í u.þ.b. fjóra tíma, en aðrir urðu eftir til að spjalla við húsráðendurnda. Friðrik og Adda gáfu sér tíma til að setjast niður með okkur og á endanum vélaði ég Friðrik til að sýna mér eldhúsið, þar sem hann treysti mér fyrir nokkrum "leyndarmálum." Hann fræddi okkur heilmikið um íslenska matargerð og erlenda, en hann hefur ferðast víða, m.a. um Ítalíu, þar sem hann heillaðist af Slow-food. Svo hefur hann kynnst og starfað með Ferran Adriá á Costa Brava. Friðrik og Adda eru heill hafsjór af fróðleik og afskaplega skemmtilegt og gott fólk að sækja heim. Við litum í bækur og sáum nokkur myndaalbúm af ferðalögum þeirra, þar sem þau hafa kynnt sér matarmenningu og matargerð framandi staða, en ég hugsa að maður verði að gefa sér betri tíma til að fá að kynnast því. Klukkan var líka orðin margt, við sátum og spjölluðum í um klukkutíma frá því stóðum upp frá borðum, og þegar klukkan var orðin tvö, var kominn tími til að rölta heim á leið.

Það eru fáir staðir, sem eru jafn persónulegir og jafnframt metnaðargjarnir og fjölskyldustaðurinn Friðrik V. Metnaðurinn og fagmennskan ná langt út yfir þau mörk og kröfur, sem maður gerir vanalega til íslenskra veitingastaða. Ég er afskaplega þakklátur fyrir kvöldið - og ég veit að það markar upphafið að löngu vináttusambandi við Friðrik V.
- Takk fyrir mig!

Verðinu er vægast sagt stillt í hóf - og það er hvergi held ég, þar sem verð og gæði er í svo miklu ósamræmi á Íslandi! Staðurinn er meira en þess virði að gera sér ferð norður til að upplifa kvöldstund á Friðriki V - og þá mætti alveg eins taka tillit til flugmiðans! Reykingar eru leyfðar í koníkaksstofunni/vindlaherberginu, þar sem staðurinn býður upp á gott úrval af koníaki, brandy og annarra digestíva, auk þess að vera með vindlana í sérstökum hitakassa, sem temprar rakastigið. Aðgengið er upp stiga, svo það þarf að líta til þess, en geta má, að staðurinn flytur á annan stað nú í sumar, þar sem aðgengið verður e.t.v. betra. Ég tók ekki eftir börnum á staðnum þetta kvöld, en staðurinn er jafnan aðeins opinn á kvöldin. Þótt gera megi ráð fyrir, að gestirnir séu kannski ekki hinar hefðbundnu barnafjölskyldur, sé ég ekkert því til fyrirstöðu.

Friðrik V er á Strandgötu 7 á Akureyri, s. 461 5775. Frekari upplýsingar, uppskriftir og fréttir má finna á www.fridrikv.is, en þar er einnig hægt að skrá sig á póstlista til að heyra nýjustu fréttir og vita hvað er á döfinni. Staðurinn mun svo flytjast í sumar í Grófargilið, Kaupvangsstræti 6.

Verði ykkur að mjög, mjög góðu!

 


Húrra!

Hvað er að gerast? Ísland að bætast í hóp siðmenntaðra þjóða?

Skál fyrir því!


mbl.is Allsherjarnefnd afgreiddi frumvarp um afnám einkasölu ríkisins á léttvíni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gat nú skeð að þar kom að því!

Jæja, og ég sem er búinn að fresta því að kíkja þangað í allan vetur - ég veit núna svei mér ekki hvers vegna í ósköpunum ég lét ekki verða af því að fara þangað fyrir jólin!

Rene Redzepi og Claus Meyer mega vera stoltir af árangrinum - en það er kannski ekki að spyrja að því þegar menn hafa lært undir handleiðslu Ferran Adriá (El Bulli, Spáni) og Thomas Keller (French Laundry, Ca.; Bouchon, Vegas; Per se, NY) og fleiri - þarna mætast tveir heimar og springa svo út í eldhúsi í Kaupmannahöfn.

Jæja, þá verður maður víst að fara að reyna að panta sér borð og fara að kíkja á  heimasíður flugfélaganna - kannski noma komist bara að á þessu ári, svona fyrst maður er búinn að fá neitun hjá El Bulli (strax í okt í fyrra) - en nú geta vonirnar glæðst um gott sumar.

Á áætlun í sumar eru:

1. Edsbacka Krog (Stokkhólmi, tvær Michelin stjörnur) - kíkti þangað síðast fyrir 5-6 árum ef ég man rétt, þá hafði staðurinn eina stjörnu - mjög góður og sú frábærasta þjónusta sem ég hef upplifað á veitingastað!

2. French Laundry - (Thomas Keller - þriggja stjörnu staður í Vínlandi í Kaliforníu) - þ.e.a.s. ef ég kemst og læt verða af því að kíkja í heimsókn til Skúla bróður og fjölskyldu.

3. The mini bar (Washington DC - El Bulli lærðir kokkar með mini útgáfuna) - svona ef maður á leið hjá . . .  

og nú:

4. noma - Kaupm.höfn . . . . (ætli vinir mínir í Kaupmannahöfn eigi dýnu fyrir mig - enn einu sinni?)

 . . . er ég ekki örugglega að gleyma einhverjum?


mbl.is Noma er komið með tvær Michelin-stjörnur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband