Ristorante Uno Reykjavik


uno1Það er ánægjulegt andrúmsloft á veitingastaðnum Uno við Ingólfstorg í húsnæðinu, sem áður hýsti Victor og Balthazar. Við inngönguna blasir við manni pastagerðarvél og svo tekur maður fljótt eftir hangandi pylsum og kjöti yfir barborðinu, þar sem glittir í bakkanna af grænmeti og ávöxtum eins og á grænmetismarkaði. Maður áttar sig strax á, að hér er kominn staður, sem á engan sinn líka í Reykjavík. Uppskriftin er einföld: Hefðbundinn ítalskur veitingastaður, sem hefur yfirbragð góðrar trattoríu, en heldur sig við seðilinn - (hann má nálgast á heimasíðunni: www.uno.is) - útkoman er klassafínn ristorante.

Seðillinn er eins og best verður á kosið, boðið er upp á aperitivo, nokkra drykki, sem ég geri ráð fyrir að fylgi hefðbundið ítalskt snarl með - (á Ítalíu tíðkast að gefa örlítið snarl með áfengum drykkjum, þar sem hefðin er sú, að fólk drekkur yfirleitt ekki áfengi með mat, - en þá fær maður örlítið smakk með, þegar maður hyggst aðeins panta sér drykk - er mjög vinsælt sem fordrykkur - eða heil máltíð, ef drekka á nokkra drykki! Ég hef hins vegar hef ég ekki kíkt þangað í aperitivo, en geri eflaust við fyrsta tækifæri.) - Þá er boðið upp á nokkra forrétti, antipasti, og svo taka við hinir hefðbundnu fyrstu réttir, primi. Fyrsti réttur, primo, á Ítalíu á eftir antipasto er yfirleitt pasta, jú eða risotto, og er nokkuð gott úrval af pastanu, sem er búið til á staðnum í pastagerðarvélinni Rósu. Það er því alltaf ferskt. Þá er þarna prýðisgott sjávarréttarisotto, sem ég fékk mér í hádeginu (2.490.- kr.), sem var með vænum skammti af blönduðum sjávarréttum og m.a. chorizo pylsum, sem bragðaðist ljómandi vel, þótt pylsurnar ættu e.t.v. frekar heima á Spáni. Skammturinn var vel útilátinn og ég átti í vandræðum með að ljúka honum og hafa mig aftur til vinnu að loknu hádegishlénu. Svo er boðið upp á uxahalarisotto og svo það, sem virðist vera að vera að ryðja sér svolítið til rúms á íslenskum stöðum, hið svokallaða byggottó (en þá er bygg notað í stað hinna hefðbundnu hrísgrjóna). Þá er þarna skemmtilegt úrval af carpaccio á seðlinum. Fyrir utan hið klassíska nautacarpaccio er boðið upp á hangikjötscarpaccio (1.390.- kr.), sem hljómar mjög freistandi, og svo humarcarpaccio (1.490.- kr.), sem ég lagði í í þetta sinn og var ekki svikinn. Ég lét þessa tvo rétti duga svona í fyrstu ferð minni þangað.

Hinn hefðbundni aðalréttur, eins og við köllum, er yfirleitt annar réttur á Ítalíu (já, þrátt fyrir jafnvel aperitivo/snakk og antipasto/forrétt) og er því kallaður secondo. Honum er iðulega skipt í klassíska tvennd, kjöt og fisk. Á kjötseðlinum er boðið upp á naut og lamb og svo kjúkling, sem á að vera grillaður undir heitu hrauni. (Einhver þarf nú að fá nánari útskýringu á því, hvað þar er átt við!) Er svo boðið upp á ítalskan hamborgara með öllu tilheyrandi. Fiskurinn er svo nokkuð hefðbundinn, grillaður lax, saltfiskur og grilluð lúða. - E.t.v. bjóða aðalréttirnir upp á frekari umfjöllun síðar meir, enda má ekki gleyma því, að á seðlinum er boðið upp á óvissuferð, menu a sorpresa (matseðil, sem bregður eða kemur á óvart) - og innifalið í honum er 7 rétta óvissuferð með prosecco í fordrykk (freyðandi hvítvín eða freyðivín), sex réttum og eftirrétti. - Það þarf að skoða þennan matseðil í allra nánustu framtíð.

Skemmtilegur eftirréttarseðill er á staðnum, m.a. skyr panna cotta, sem ég þarf endilega að smakka, og svo ísinn, sem ég vona að þeir geri á staðnum. Það er fátt, sem ítalir eru stoltari af, ef ekki móður sinni, þá er það ísinn þeirra! Ég vona því, að næst, þegar ég líti við, þá bragði ég á Uno gelato eða annarri hvorri gelato-sprengjunni, lakkrís eða kókos.  

Það, sem vekur athygli við lestur seðilsins er hversu gott úrval af Grappa er boðið upp á. (Hingað til, ef ég man rétt, hefur maður varla séð fleiri en tvær til þrjár tegundir af Grappa á stöðunum, en annars er töluvert síðan ég hætti að fara á ítalska staði hér í bænum - ja, eða utan Ítalíu, ef því er að skipta.) Svo er auðvitað boðið upp á staup af alvöru Limoncello, sem er sætur sítrónulíkjör, sem er afskaplega vinsæll eftir góða máltíð - eða fyrir máltíð - ja, eða í raun bara hvenær sem er.

Staðurinn er virkilega skemmtilegur að koma inn á. Upplifunin af barnum með hangandi prosciutto og salami yfir barborðinu, ávextir og grænmetir eins og á markaðnum fyrir aftan þjónana, vínflöskur, pottar, pönnur og ólívuolíukönnur á hillum hingað og þangað gefa staðnum alveg sérstakt yfirbragð. Manni finnst maður velkominn - og á einhvern máta minna þau gamlan ítalíubúa á kunna tilfinningu, maður er einhvern veginn að koma heim. 

Af þessari fyrstu heimsókn að dæma þá virðist staðurinn þaulsetinn. Nóg að gera og mikil læti í eldhúsinu eins og á góðu ítölsku veitingahúsi. Það skemmtilega við staðinn er hvernig hann er innréttaður, en það er opið beint inn í eldhús, þar sem hægt er að fylgjast með kokkunum skella pastanu í sjóðandi vatnið, leggja glóðheitt kjötið á diskana og undirbúa veislu fyrir bragðlauka gestanna.

Það er virkilega þess virði að heimsækja Uno veitingastaðinn - ef ekki einu sinni, þá aftur og aftur! 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Sammála þér, skemmtilegur staður, góður matur og verðið skemmir alls ekki fyrir. Prufaði lúxushamborgarann (úr nautalund og nautaribeye - mmmmm) og calamari og ravioli í forrétt og augljóst var að þarna var gæðahráefni meðhöndlað af mönnum með vit í kollinum.

Sérstöku ítölsku franskarnar sem hægt var að velja um með borgaranum voru áhugaverðar - að sögn eru þær hollari en venjulegar franskar en þær voru ekki beint hnossgæti þótt þær hafi ekki verið vondar.

Hallinn (IP-tala skráð) 4.2.2011 kl. 18:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband