Smáréttir og hádegissnarl - Vox | Hereford | Tapasbarinn

Það er oft þegar svengdin gerir sig heimakomna hjá manni, þá dettur maður inn á staði, sem maður bjóst undir öðrum kringumstæðum ekki við að líta inn á, nema e.t.v. við annað tilefni. Síðasta vika hefur einmitt verið þannig . . .

TapasbarinnÉg stakk aðeins inn nefi (óvart) á Tapasbarinn í síðustu viku og ætlaði mér nú bara rétt að stoppa stutta stund og smakka sjávarrétta-paelluna, sem þeir bjóða upp á þar, en nei! - Áður en ég vissi af var ég lagður af stað í óvissuferð, sem virtist engan enda ætla að taka. Ekki má þó skilja það svo, að ferðalagið hafi verið leiðinlegt - síður en svo! Það er töluvert langt síðan ég leit við á Tapas síðast og því var ágætt að fylgjast aðeins með, þó svo ekki hafi verið mikið um áherslubreytingar. Tapas er alltaf viðkunnanlegur staður, ekki í dýrari kantinum og skemmtilegur heim að sækja, ef maður ætlar að eiga notalega kvöldstund með fólki yfir mat og drykk til að spjalla um daginn og veginn. Þetta var ágætis ferðalag og í raun ekki svo dýrt, þegar maður hugsar um það, sem boðið var upp á. Óvissuferðin er á undir 4.000.- kr. og felur í sér 7 tegundir af blönduðum réttum ásamt fordrykk og eftirrétti. Fyrir tvo þá er þetta rússíbanareið um heila 14 rétti! - Hentar kannski ekki fyrir stutta fundi, en fín tilbreyting, ef maður vill slaka á og í lok dags yfir fjölbreyttum mat. Til að byrja með var boðið upp á léttan og freyðandi fordrykk. Í þetta sinnið var boðið upp á lamb með lakkríssósu (í raun var anísinn aðallega úr Sambuca, og því fannst mér sósan ekki alveg standa undir því að kallast lakkríssósa), reyktan lunda, sem var mjög góður, með, að ég held, cumberland sósu, svo spjót með, ef ég man rétt döðlum, og hörpu vafða beikoni, risarækju á spjóti í grænni sósu (basil), rækjur (karrý? tikka? - man það ekki), naut með pestó, sem var í raun ágætt (ég var svona nokkuð ánægður með pestóið, en það er svo sjaldgæft að maður lendi á góðum basil hér á landi, en þessi var svona með þeim skárri, sem maður finnur hérna), risahörpu, piripiri kjúklingavængi með gráðostasósu (æi, búinn að fá nóg af slíkum bras-barréttum), kálfakjöt, sem reyndist ágætt, kjúklingaspjót, meira naut, eggjakartöfluböku, skötusel vafinn í serrano-skinku og saltfisk, sem var alveg ágætur (úr ofni, var samt ekki alveg viss með tómatbragðið). . . Ég hreinlega man ekki alla réttina, en mig minnir að þarna hafi verið einhver fiskréttur með pestó, sem ég var svolítið hrifinn af. Í lokin var svo súkkulaðikaka og kaffi. Ég fékk hins vegar fallega skreyttan disk með marenstoppum, rjóma ávaxtahlaupi og blönduðum ávöxtum, sem var bara fín sárabót fyrir að geta ekki bragðað súkkulaðikökuna. Í raun er Tapasbarinn frekar þægilegur hversdagsstaður og gott að eiga þar skjól, þegar ekki stendur svo stórt til, þó ég efist ekki um að stórar veislur gætu verið þrælskemmtilegar í baksalnum. Ég var svona nokkuð ánægður með útkomuna, en hún var alveg í anda þess, sem ég bjóst við. Maður veit að hverju maður gengur, þegar maður stígur inn á Tapas. . .

HerefordÞað var svolítið skrýtin atburðarás, sem varð til þess, að ég endaði í hádegismat á Hereford-steikhúsi á Laugaveginum. Við vorum að leita okkur að þægilegum hádegismat og þar sem við gengum framhjá Vín og skel, þá blasti við Herefordsskilti úti á gangstétt og þar sem svo langt er um liðið síðan ég kíkti við þar og fékk ágætis naut hjá Guðna, þá var ákveðið að kíkja upp. Hádegisseðillinn lítur bara nokkuð vel út og verðinu er stillt í hóf. Fyrir valinu varð annars vegar hádegissteik með hvítlaukssmjörklípu, bakaðri kartöflu og glóðuðu grænmeti. Hún var ágæt, frekar meyr og ljúf, en hefði mátt vera aðeins rauðari fyrir minn smekk. Hins vegar pantaði ég mér nauta-ribeye, sem var borið fram með sama meðlæti. Mér var boðið að velja milli bernaise- eða piparsósu og ég valdi piparsósuna, þó svo að sósu ætti nú varla að þurfa, ef kjötið er nógu gott. Ég varð reyndar fyrir vonbrigðum með kjötið. Í fyrsta lagi var kjötið aðeins of vel feitt - ekki að skilja, að ég hafi neitt á móti vel öldum kálfum, en þegar það er farið að hafa áhrif á upplifunina af matnum, þá setur það svolítið strik í reikninginn. Í öðru lagi hefur steikingin eitthvað farið úrskeiðis, því öfugt við það, sem gilti um hádegissteikina, þá reyndist ribeyið það rautt í miðjunni að meira að segja ég gat fundið að því. (Og þá er nú mikið sagt!) Svo var kjötið með einhvers konar sinneps-hunangs-gljáa, sem hefði í raun alveg mátt sleppa, hefði kjötið staðið undir því - og ég furðaði mig á því, hvers vegna boðið væri upp á sósu með því, þar sem gljáinn hefði nú átt að geta staðið fyrir sínu. En þannig var það. Mér hefur alltaf þótt ágætt að geta litið inn á Herefords til að fá mér góðan kjötbita, yfirleitt er ekki svo dýrt að kíkja þangað og svo er vín hússins yfirleitt ágætt, eins og það var í þetta skiptið. Það skyggði hins vegar á þessa hádegisstund, hvað ég varð fyrir miklum vonbrigðum með kjötið - enda er kjötið aðalástæðan fyrir því að maður kíki við á Herefords! Hvort sama megi segja um kvöldseðilinn veit ég svo sem ekki, en ég vona að þetta hafi bara verið einsdæmi, og að hádegisseðillinn eigi eftir að koma vel út í sumar. - Kannski að maður kíki betur á það, þegar þar að kemur . . . ?

Þegar ég kom út af Hereford, rakst ég á Guðna, gamlan vin og skólafélaga, sem er margreyndur Hereford-kokkur, en hann var að fást við að koma upp skilti fyrir Vín og skel í næsta húsi. Ég spjallaði aðeins við hann, og þá var hann nýbúinn að færa sig yfir í næsta hús og við ræddum aðeins hvað V&S ætla að bjóða upp á í sumar . . . Ætli það verði ekki skammt þangað til ég slái á þráðinn til hans, enda er maður farinn að sleikja aðeins út um við tilhugsunina um ostrurnar, hríseyjarkræklinginn og öðuskelina, sem verða á seðlinum á þeim bænum í sumar.

voxÁ endanum leit ég svo við á Vox. Það er merkilegt hvað allir staðirnir eru farnir að höfða til manns, heimtandi það, að nýju seðlarnir séu eitthvað, sem enginn sælkeri megi ekki láta fram hjá sér fara. Svo ég lét til leiðast. Vox-Bistro er mjög fínn, það er þægilegt að sitja í rólegheitunum við barinn og geta átt fund í hádeginu - og ekki skemmir kunnátta kokkanna fyrir! - Ég hef alltaf verið á leiðinni að kíkja, en þá í kvöldseðilinn, en í þetta sinnið, þar sem ég átti þarna stund með félaga mínum, þá gat ég ekki staðist mátið og heimtaði að við fengjum okkur nú svona eins og einn rétt eða svo - og það varð úr. Það verður ekki af þeim tekið, að metnaðurinn er mikill í eldhúsinu og umtalið verðskuldað, þegar Vox er annars vegar. Ég pantaði mér andalæri af hádegisseðlinum. Félagi minn fékk sér hins vegar blandaða síld, sem ég bara rétt smakkaði á, þó ég hafi verið hrifinn af bakkanum, sem síldin var borin fram á. Öndin kom á fallegum djúpum diski, klassísk nútímaútsetning. Kjötið var milt og mjúkt og mjög bragðgott. Á lærið hafði verið stráð rifnum appelsínuberki, sem kom nokkuð vel út. Með lærinu kom svo blandað salat, klettasalat, mangó, tómatur, og furuhnetur og sesamfræ - mér fannst sem ég hafi séð þarna líka brot úr valhnetum og pecanhnetum. . . Þegar ég smakkaði salatið fannst mér það aðeins of "löðrandi" - eins og olían ogAndarlæri - Vox eitthvað appelsínubragð, sem ég kveikti ekki alveg á hvað var, hefði óvart runnið úr flöskunum yfir salatið á disknum mínum . . . Þegar ég svo síðar smakkaði á sósuröndinni, sem var til skreytingar umhverfis kringlóttan diskinn, þá grunaði mig að appelsínubragðið væri nú bara úr einföldu appelsínuþykkni - gott ef ekki bara Egils-appelsínuþykkni. Þótt hugmyndin hafi verið góð, hefði aðeins mátt vinna betur með appelsínuþykknið og e.t.v. minnka magnið, sem hellt var yfir salatið - sumir vilja halda bragðinu af salatinu líka! Það hefði t.d. mátt þynna það aðeins og minnka sætuna, jafnvel blanda það smá soði? - enda var soðið í botninum ágætt með þessum appelsínukeim. Þrátt fyrir þetta var ég mjög sáttur við réttinn - tilvalinn hádegisréttur með tveggja manna tali - og umhverfið eins og best verður á kosið - rólegt og þægilegt, engar truflanir. Eftir þetta, held ég að það styttist óðum í að maður fari að panta sér borð og fái sér almennilega veislu . . .

Hins vegar er hugurinn nú við föstudagskvöldið og Guy Lassausaie á Listasafninu, Hótel Holti!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband