9.2.2007 | 12:51
Vietnam - Restaurant - Kaupmannahöfn
Ég brá mér til Kaupmannahafnar um daginn og var þar í nokkra daga í heimsókn hjá vinafólki mínu og m.a. brá ég mér tvisvar til að fá mér að bragða á víetnömskum mat, sem ég hef ekki mikla reynslu af - hef held ég aðeins einu sinni farið á víetnamskan stað áður, en það fyrir um 8-9 árum á Ítalíu. En hvað um það . . .
Úti við Østerport er þessi skemmtilegi víetnamski staður, Vietnam - Restaurant, á horninu á Nrd. Frihavnsgade og Østbanegade (í raun á götunni, sem liggur meðfram lestarteinunum - best er að taka S-lestina og fara út á Nordhavn stöðinni, þá stendur maður andspænis skatthúsinu, þegar gengið er niður tröppurnar og út á Østbanegade, þá er staðurinn á 2. eða 3. horninu þegar beygt er til vinstri). Mér leist í raun svo afskaplega vel á staðinn, að ég kíkti þangað tvisvar, tvo daga í röð til að bragða á matnum.
Staðnum er lýst sem fyrsta og elsta víetnamska veitingastaðnum í Kaupmannahöfn (stofnaður 10.05.1984). Staðurinn býr yfir frekar látlausu, rólegu og þægilegu yfirbragði og hann virðist ágætlega sóttur, sérstaklega um helgar, en í miðri viku (sérstaklega kannski um vetrartímann) er minna að gera. Starfsfólkið er afar indælt og þjónustulundin skín af því, og flestir þjónanna tala bæði dönsku og ensku (önnur tungumál voru ekki reynd í þessari ferð!). Hann er aflangur og tekur um 80 manns í sæti, skreytingarnar eru í hefðbundnum asískum stíl, þó ekki þessar rauðu hefðbundnu plastskreytingar, sem maður sér á 2/3 af öllum kínversku stöðunum í Evrópu. Þegar gengið er inn blasir við manni aflangur gangur með flestum borðanna og við endann er risastórt fiskabúr, sem hægt er að líta við í á leiðinni á salernið inni við endann. Í hinum endanum er svo afmarkað minna svæði með 4-6 borðum. Ágætlega er dúkað upp og eru þykkar pappírsservíettur á diskunum. Reykingar eru leyfðar á staðnum, en þrátt fyrir það virðist staðurinn einstaklega barnvænn (m.a. boðið upp á fisk eða kjúkling með frönskum fyrir börnin - ef ekki er búið að ala þau upp til að borða annað og betra!). Fólk sækir staðinn hvort heldur eitt síns liðs - sem mér fannst danirnir gera í nokkrum mæli á þeim stöðum, sem ég sótti meðan ég dvaldi þarna - eða í góðum félagsskap. Verðið spillir heldur ekki fyrir.
Fyrra kvöldið, sem ég leit þarna inn, settist ég niður og beið eftir sjávarréttasúpu (48.- DKR). Á meðan ég beið bragðaði ég á Saigon bjór (29.- DKR), sem er hrísgrjónabjór að nokkru leyti. Hann var frekar mildur og góður á bragðið, og úr varð að ég valdi hann með öllu því, sem ég bragðaði af staðnum. Meðan ég beið kom þjónninn með fulla skál af rækjukökum, sem voru mjög bragðmiklar og olían hafði settst vel í þær. Þær voru frekar ljúffengar og gáfu bjórnum góðan félagsskap og gerðu biðina eftir súpuna enn betri.
A.3 - Sjávarréttasúpa - 48.- DKR.
Sjávarréttasúpan var ekki beinlínis tær, heldur svona hálftær, örlítið í ætt við þær, sem maður þekkir af kínverskum veitingastöðum - þá einna helst hákarlasúpu, hvað þykktina varðar, en bragðið var þó annað. Hún var mjög bragðmikil og chilli-bragðið skein í gegn, en var þó ekkert yfirþyrmandi. Sveppir, sítrónugras, engifer, steinselja og púrra voru grænmetisuppistaðan, og af sjávarréttum var þarna kræklingur, leturhumar, smokkur og krabbi. Góð og sterk súpa með góðu og sterku eftirbragði, soðið þykkt og sterkt. Ég mæli með henni, sérstaklega á köldu kvöldi eins og þessu, sem ég var þarna, en það var einmitt nýbyrjað að snjóa og frekar kalt í lofti.
Kvöldið eftir leit ég aftur við, en þá var farið betur yfir matseðilinn. Eins og kvöldið áður pantaði ég mér Saigon bjór og fékk stuttu síðar rækjukökur til að maula með bjórnum. Þjónninn þekkti mig frá því kvöldið áður og brosti út í annað, þegar ég hristi snjókornin úr hárinu þegar ég gekk inn. Nú var ráðist í þrjá rétti: Kjúkling með karrý, hrísgrjónarétt m/kjúkling og svo froskalappir m/sítrónugrasi og fersku chili. Annar réttur var þarna með froskalöppum m/sæeyrum (e. abalone) og blönduðum sveppum (kínverskum/frönskum), en hann verður að bíða næstu ferðar.
Þrátt fyrir að víetnamar séu vel að sér í meðferð sjávarrétta og ýmissa fiskrétta varð kjúklingurinn af einhverri ástæðu fyrir valinu. Froskalappirnar eru svo eitt af þessum ómissandi réttum, sem maður verður að geta bragðað á öðru hvoru - svona eins og hákarlasúpa! - ja, hvenær sem tækifæri gefst til! Súpan frá kvöldinu áður fékk svo að fylgja með á nýjan leik . . .
13. - Kjúklingur í karrý - 95.- DKR.
Kjúklingurinn var í kókosmjólk, sem var vel bragðbætt með karrý (svona meðalsterkur réttur), sítrónugras og lauf, bambus, ananas og cashew hnetur. Frekar góður og bragðmikill réttur, en e.t.v. hefði mátt velja einhvern fiskréttinn í staðinn.
39. - Hrísgrjón með kjúklingi - 82.- DKR.
Uppfyllingarefni. Rétturinn er seldur sem aðalréttur, en dugar vel fyrir 2-3 sem aukadiskur af hrísgrjónum - blönduðum þó. Afskaplega mildur réttur, steikt hvít hrísgrjón með blönduðu grænmeti (baunaspírur, grænar baunir, gulrætur, soja) og svolitlu af kjúkling - ekki svo að skilja, að ekki hafi verið veitt vel af kjúklingnum í réttinn, en þetta er bara einn af þessum hefðbundnu hrísgrjónaréttum, þar sem aðaláherslan verður á hrísgrjónin, og þrátt fyrir að þeim sé blandað við grænmeti og kjúkling, þá hefur það lítil áhrif á hlutleysi hrísgrjónanna, sem halda öllu mildu og í, ja, óþægilegu jafnvægi.
33. - Froskalappir - 125.- DKR.
Tvímælalaust réttur kvöldsins! Froskalappir, steiktar á pönnu með miklum lauk, sem hefur verið svissaður vel í olíu og chili áður en leggjunum hefur verið skellt út á, og steikt með ferskum, og nýskornum, rauðum chili. Virkilega bragðmikill réttur og sterkur! Það var afskaplega gaman að sjá hve froskalappirnar voru matarmiklar, yfirleitt þegar ég hef fengið mér froskalappir á austurlenskum stöðum í Evrópu hafa þetta jafnan verið sömu litlu grönnu spóaleggirnir, sem lítið kjöt hefur verið á. En hér var um annað að ræða, vel þykkir vöðvar á lærum og kálfum, löðrandi í sterkri olíunni. Strax eftir fyrsta bitann, þá fékk maður vatn í munninn við að stara á diskinn. Hins vegar rann bjórinn niður hraðar en ella, enda um rétt í sterkari kantinum að ræða.
Fyrir allt þetta, súpuna, kjúkling í karrý, hrísgrjónaréttinn og froskalappirnar, jú, og tvo Saigon bjóra, greiðir maður 408.- DKR. - en hafa verður í huga, að þessi matur getur vel dugað fyrir 3 - jafnvel fjóra. Svo er gott að hafa í huga, að staðurinn veitir 15% afslátt af matseðli, ef tekið er með heim!
Tvímælalaust staður til að heimsækja. Ég hlakka til næst! - en þá verður lögð áhersla á sjávarréttina og reynt að líta á vínseðilinn. Staðurinn er með heimasíðu, þar sem hægt er að líta á matseðilinn og verðið, og svo fylgja myndir af helstu réttunum. Slóðin er: http://www.viet.dk.
Verði ykkur að góðu!
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 14:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.