Al Pappagallo - Bologna

Ég brá mér í  nokkra daga með Halla vini mínum til Ítalíu nú um daginn. Við höfðum setið sveittir við lestur inni á bókasafni lagadeildar Kaupmannahafnarháskóla í nokkra daga og brugðum okkur svo til Ítalíu í skemmti- og skoðunarferð. Ég hafði fundið svo ódýra miða á netinu, að ég ákvað að bjóða Halla með í nokkra daga að sýna honum "heimahagana" og kenna honum nú að borða!

Við lögðum af stað á sunnudeginum 28da janúar frá Hovedbanegården áleiðis til Vejle á Jótlandi, en þar áttum við að taka svo rútu upp á flugvöllinn í Billund. Við vorum frekar snemma á ferðinni, lestin var komin til Vejle um þrjúleytið, en við áttum ekki að vera komnir út á flugvöll fyrr en um sjöleytið (vélin átti að fara hálf níu), svo við spurðumst fyrir hvað hægt væri að gera í Vejle í nokkra tíma. Konan á upplýsingamiðstöðinni við rútubílastöðina upplýsti okkur um það, að hún væri nú bara frá Kolding og vissi lítið um Vejle, svo hún kallaði á vinkonu sína, sem sat fyrir innan, og spurði hvað túristar gætu gert í Vejle á sunnudagseftirmiðdegi. Svarið kom um hæl: Ekkert!

Við röltum samt niður í bæ og reyndum að finna kaffihús, en enduðum auðvitað inni á svona "subbupöbb," sem var opinn. Þar reyndum við að skipuleggja ferðina og skoluðum niður nokkrum Tuborg í leiðinni.

Ferðaplanið var einfalt: Billund -> Pisa -> Flórens -> Bologna -> Genova -> Pisa -> Billund. Fyrir flugmiðann hafði ég borgað eina evru; fyrir okkur báða fram og til baka kostuðu miðarnir samanlagt rétt rúmar 3.000,- kr. íslenskar, en hængurinn var sá að fljúga frá Billund, en miðinn með lestinni aðra leiðina kostaði rúmar 3.000,- kr. á mann. Spurning um sparnaðinn þar!

Við komum á flugvöllinn í tíma, en seinkun var á vélinni. Svo þá var ráðist í steik, franskar og bjór á flugvellinum og svo lagt í hann.

Í Pisa gerðum við lítið en að koma okkur fyrir á hótelinu, reyna að finna opinn matsölustað um miðnætti - sem auðvitað gekk ekki eftir - svo úr varð að fá sér einn öl með nokkrum pólverjum á bar rétt hjá lestarstöðinni. Svo var haldið í háttinn.

Kræsingar í FlórensEftir að hafa tekið daginn snemma, skoðað turninn og rölt um bæinn, fórum viðSjávarréttasalatið til Flórens. Röltum þar um í svolítinn tíma og kíktum á það helsta, en rákumst á fallegt barborð, yfirfullt af kræsingum á litlum stað, þar sem við fengum okkur sjávarréttasalat og kvartlíter af hvítvíni og hálfa sódavatn.

Svo var haldið til baka á lestarstöðina og haldið til Bologna. Komum frekar seint, fundum hótelið,  (Hotel Holiday, via Bertiera 13) þetta fína hótel, sem við rákumst á á netinu fyrr um daginn og fengum fyrir spottprís. Það var reyndar í óupplýstu skuggasundi, en var niðri í miðbænum og var þriggja stjörnu - og miðað við mína reynslu af svokölluðum þriggja stjörnu hótelum á Ítalíu, þá stóð þetta meira en vel undir væntingum!

Svo hófst veislan!

Ég var búinn að tala um aperitivo við Halla, sem ég þyrfti að kynna fyrir honum. Á Ítalíu þykir nefnilega fínt að drekka vín, en ósiður að vera fullur. Þess vegna er til þessi skemmtilega afsökun, að vertinn hjálpar manni að líta ekki illa út þegar maður pantar sér áfengan drykk á börunum, að hann býður manni alltaf eitthvað til að maula á á meðan, m.a.s. er varla til svo slæmur "bjórpöbb" að ekki fylgi a.m.k. snakk, hnetur eða popp með bjórnum! Áfengi er nefnilega ekki drukkið nema með mat! - Við fundum okkur "fínni" stað og pöntuðum okkur tvo Campari-Soda. Halli trúði varla sínum eigin augum, þegar þjónninn kom og ætlaði aldrei að hætta að færa okkur kræsingar til að snæða á með nokkrum sentilítrum af Campari-Soda. Við fengum ólífur, alls kyns brauðmeti, samlokur með bresaola og fleira góðgæti. Halli naut nú góðs af því og talaði um að þetta væri besti matur sem hann hefði smakkað . . . Ég hló við og sagði þetta bara vera svona smárétti með fordrykknum. Halli, sem er sjaldnast hrifinn af uppáhaldsfordrykknum mínum, kláraði hann nú ásamt því að klára alla diskana, sem við fengum á borð til okkar - og svo spurði hann hvort við fengjum meira ef við pöntuðum annan drykk!

Ég stakk upp á því að kíkja á annan stað, það væri sjaldan til siðs að drekka of mikið af fordrykkjum á sama staðnum, jú, kannski tvo. (Ég hafði nú reyndar stundað það að kíkja á barina og fá mér fordrykk og allt sem honum fylgir og láta það duga sem kvöldmat, þegar ég bjó þarna. En það er önnur saga . . . ) Við kíktum á annan stað, Campari-Soda og Martini Bianco. Sama sagan, ólífur, brauðmeti, skinka og fleira góðgæti fylgdi með.

Hugmyndin var að fara með Halla og kynna hann fyrir alvöru mat í Bologna. Ég leitaði uppi stað, sem ég fór á fyrir nokkrum árum, en honum virtist hafa verið lokað. Þá ætluðum við að kíkja við hjá Gianni (Da Gianni, via Clavature 18), en það var lokað. (Flestir veitingastaðir - já og önnur fyrirtæki - hafa jafnan einn dag í viku, sem lokað er. Það gildir þó ekki um alla túristastaði eða staði, sem eru í alfaraleið túrista.) Hjá Gianni er nefnilega hægt að fá prýðisgóðan mat, dæmigerðan fyrir héraðið og er hann vel rómaður.

Svo við enduðum á Pappagallo, enda höfðum við rölt fram hjá honum nokkrum sinnum fyrr um kvöldið og velt fyrir okkur matseðlinum.  

PapagalloAl Pappagallo (Piazza della Mercanzia 3, sími: +39 051 232807) er sögufrægur staður í Bologna, stofnaður 1919 (rekur söguna þó til 1903) og er í einni af eldri byggingum borgarinnar í gamla miðbænum, en húsið var byggt á 14du öld. Staðurinn er einn af fínni stöðunum í borginni og lifir á fornri frægð. Hann heldur uppi merkjum klassískrar emilíanskrar matargerðar, en er líka framsækinn í þróun. Þegar við komum inn tók á móti okkur ungur þjónn, sem bauðst til að taka af okkur yfirhafnir, en við ákváðum að halda þeim. Staðurinn er bjartur yfirlitum og hátt til lofts, okkur var boðið upp í efri salinn, sem er skreyttur gömlu eldhúsáhöldunum, eir- og koparpottum og pönnum, við annan endann á salnum og ljósin eru þessar fallegu kristalsljósakrónur, sem maður þekkir yfirleitt bara úr kvikmyndum. Salurinn var allur skreyttur árituðum myndum af frægu fólki, leikurum, stjórnmálamönnum og öðrum frammámönnum, sem mærðu staðinn. Ég sá glitta í gamla mynd af Sophiu Loren á sínum gullaldarárum og aðra nær okkur í tíma af Lech Walesa. Í hinum endanum var svo dýrindis spegill, sem stækkaði salinn enn meira, en lofthæðin var vel yfir 3-4 metra. Á borðunum voru körfur á hverju borði fylltar ávöxtum, appelsínur á einu borðinu, græn vínber á öðru, blá vínber á því þriðja, rauðar paprikr á því fjórða o.s.frv. Skemmtilegar skreytingar. Borðbúnaðurinn var heldur ekki af verri endanum. Ef mér sýndist rétt voru silfurhnífapörin sérhönnuð fyrir staðinn, þykkar og góðar tauservíettur og alvöru kristall undir drykki. 

Yfirþjónninn kom og kynnti sérrétt kvöldsins - einn af sérréttum staðarins - en við afþökkuðum. Við litum heldur á matseðilinn, enda var hugmyndin að leyfa Halla bragða á lasagna. Einn af höfuðréttum staðarins, Lasagne verdi "Pappagallo," var einmitt á seðlinum. (Í bókunum hafa þeir reyndar jafnan haft Lasagne gialle, en ástæðuna fyrir spínatinu nú á dögum þekki ég ekki.) Í forrétt pöntuðum við blandað kjöt, prosciutto, mortadella, salame og annað klassískt borið fram með brauðkoddum (15 evrur). Það var svona la la - eitthvað, sem maður hefði getað keypt sér hjá næsta kjötsala og látið hann skera niður fyrir mann. Vín hússins var frá Friuli, en við tókum hálfa af Pinot Grigio (annað húsvín) og vatn, sem var borið fram í kristalsflösku. Staðurinn stærir sig reyndar af úrvals vínlista og hefur vel yfir 200 tegundir af ítölskum vínum, m.a. mörgum mjög góðum, sem maður þekkti. Ég held ég hafi móðgað þjóninn við að velja ekki af listanum . . . 

Halli fékk sér lasagne verdi "pappagallo" og þótti sérstakt að borða ítalskt lasagna, og fannst það ólíkt því, sem hann þekkti af "vesturlöndum." Mig grunaði að kjötið væri hreint mjólkurkálfakjöt, mjúkt og meyrt og bráðnaði á tungunni. Annars hefðbundið.

Ég fékk mér túnfisk á þrjá vegu (22 evrur). Þjónninn benti mér á í hvaða röð ég ætti að borða hann. Diskurinn var skemmtilega skreyttur, þrír réttir lagðir á diskinn til að mynda þríhyrning með eina útfærsluna í skál, það var túnfisks-sashimi og átti að borða síðast (skiljanlega, enda var lítill wasabi nabbi á kantinum!). Ég byrjaði á túnfisks-carpaccio með trufflum, örlítið volgt, olía og salt. Afskaplega mildur og góður. (Hann var hrár, en ekki eins og túnfisks-carpaccio-ið, sem maður rekst svo oft á með reyktum túnfisk, en ég var vanur að borða slíkt á Gaia, veitingastað í Genova, sem ég fór oft á í hádeginu að borða carpaccio með reyktum túnfisk og sverðfisk, þegar ég bjó þar - fyrsta mánuðinn eftir að ég flutti út, var fólkið á staðnum farið að þekkja mig þar, enda pantaði ég stundum tvöfaldan eða þrefaldan skammt af þeim "forrétti.") Svo var léttsteiktur túnfiskur, bleikrauður í miðjunni með klassískri ítalskri grænni sósu. (Sama sósan og borin er fram með soðinni hænu - enn einum prýðisgóðum ítölskum rétti!) Túnfiskurinn sat á grænmetisbeði með baunaspírum og rauðri piparrót (sterkri!). Hann var mjög góður. Svo var sashimið, sem var heldur betur sérstakt. Hrár túnfiskur, spínatvafinn og stunginn með rækju. Spínatið var líklegast linað í vatnsbaði og svo vafið um hráan fiskinn rétt áður en hann var borinn fram. Túnfiskurinn var vel hrár í miðjunni, en örlítið byrjaður að bleikjast á jöðrunum, þar sem volgu spínatinu var vafið um hann. Hann var í skál með svolítilli soya sósu og klípu af wasabi. Hann var sterkur en einstaklega góður, og spínathugmyndin hitti beint í mark! Þessi réttur sannaði það, að staðurinn stæði vel undir bæði klassískri og nýrri matargerð.

Milli rétta höfðum við hugsað okkur að smakka á sítrónusorbet með vodka, en tími gafst ekki til.

Þar sem við Halli ræddum um mat og veitingastaði, þá heyrði þjónninn mig minnast á Zeffirino, e.t.v. einn frægasta stað Ítalíu, en hann er aðeins á tveimur stöðum í heiminum, Genova og Las Vegas. (Ég læt umfjöllun um hann bíða um sinn, en hann er tilefni í heila bloggfærslu, enda um kraftaverk að ræða í matargerð!). Við það breyttist viðmótið hans heldur betur snögglega, hann fór að taka eftir því að ég var að krota hjá mér eitt og annað um matinn og hann fór að stjana vel við okkur, m.a.s. bauð hann upp á annan forrétt handa okkur að smakka, sem ég hafði eitthvað verið að spá í - á kostnað hússins: Sverðfiskscarpaccio með ruccola, jarðarberjum, olíu og hunangi, sinnepi, sítrónuberki og örlítilli piparrót. Virkilega góður, mjúkur og mildur forréttur. Sverðfiskurinn var í raun lungnamjúkur og ekki til að tala um að hann væri eitthvað harður á endunum eins og oft hættir til sums staðar.

Svo fékk ég mér annan aðalrétt: Önd m. fennil. Nú var þjónninn orðinn svo hrifinn af okkur, að hann óskaði eftir að fá að velja vínið: Ca´ del Bosco 2001 (Corte Franca), ljúft og gott, féll vel að öndinni. Öndin var vel útilátin, fennilbragðið skein vel í gegn og hún var stráð fennilfræjum. Sætir þurrkaðir ávextir (soðnir í sykri og vatni og þurrkaðir) fylgdu með (tómatur, pera, vínber, kokteilber og kiwi) og eftirbragðið af sósunni var sætt - einhver anískeimur af þessu öllu saman, en kannski var það bara fennillinn. Afskaplega góður og gómsætur réttur. Á eftir fengum við okkur svo kaffi og koníak (ja, eða í raun bara Emilia Romagna, ítalskt brandy). Fyrir þessa ljúfu kvöldstund greiddum við svo einar 115 evrur, en skildum nú eitthvað meira eftir til að þakka fyrir okkur.

Þrátt fyrir að gagnrýnendur telji staðinn lifa á fornri frægð, þá er vart hægt að segja annað, en að staðurinn standi vel undir nafni. Klassíkin er til staðar, en nútíminn hefur líka gert sína innreisn - og það vel af túnfisknum að dæma. Hins vegar þótti mér klysjurnar aðeins mega missa sín, þegar ég sá eftirréttinn á næsta borði - en maður er svo til alveg búinn að fá nóg af eftirréttum, ís, sósum, og soufflé borið fram í snapsglösum. Hins vegar tvímælalaust staður til að heimsækja ef maður á leið um Bologna - ég fer þangað alla vega alveg örugglega næst þegar ég á leið hjá (sem vonandi verður sem fyrst!)

Því miður er ekki svo mikið efni um staðinn á netinu, sem ekki er á ítölsku (því miður fyrir þá, sem eru ekki enn búnir að læra la lingua madre), en staðurinn var með tvær heimasíður. Önnur þeirra er nú niðri (www.emiliantavola.com), en hægt er að kynna sér meira um staðinn og sögu hans og þá helstu sérrétti, sem þar er að fá hér: http://www.alpappagallo.it.

Frá Bologna fórum við með lest daginn eftir til Genova og snæddum þar "hjá Viktori" - Da Vittorio - en það verður efni næstu færslu.

Buon appetito! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband