Heimabrugg - iðnaður?

Já, þetta er sannarlega fagnaðarefni. Þó svo maður smakki á Kvöldsól af og til, svona til að ýta undir framtakið, þá er hún kannski ekki efst á óskalistanum.

Kunnáttan er vissulega til staðar hér á landi, ýmiss konar sultur, grautar og saft hafa verið gerðar hér um langa hríð - og það er ekki stórt skref að stíga að færa sig yfir í víngerðina. Við Íslendingar gætum jafnvel komið okkur upp góðri kunnáttu í gerð bláberjavína, sem hægt er að drekka hvorum megin við Atlantsálanna og hafa reynst vel, m.a.s. eru prýðisgóð bláberjavínrækt langt norður eftir austurströnd Ameríku. Það væri ekki úr vegi að byrja með tilraunir með slíka hluti og svo jafnvel einhverja sætvínsgerð, þó ekki væri nema í eftirrétti eða með þeim, úr einhverjum af þeim runnaberjum, sem vaxa nú svo til í hverjum garði.

Hvort einhver "iðnaður" í einhverjum mæli verði hins vegar úr þessu þykir mér ólíklegt, e.t.v. eitthvert smáræði á innanlandsmarkað eða veitingahús, en varla verður neinn útflutningur af þessu. Samt vona ég að sú spá mín sé röng. 

Það er þó e.t.v. eitt sem ég sæktist eftir meira en nokkurri annarri afurð Íslands, sem hvergi fæst lengur (ef þú átt eina, máttu láta mig vita! ;) - en það er gamla hvannarrótarbrennivínið. Það fellur þó án efa í annan styrkleikaflokk en heimila á með þessu frumvarpi.

Samt sem áður,

Gott framtak! - Látum það rætast!


mbl.is Megi brugga íslensk vín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Da Vittorio - Genova

Da VittorioÞað er alltaf ánægjulegt að kíkja við hjá Vittorio í Genova (Da Vittorio, via di Sottoripa 59r, Genova, sími: +39 010-2472927). Staðurinn er ábyggilega með frægari sjávarréttastöðum í borginni og staðsetningin eftir því - í gömlu súlnagöngunum, Sottoripa, við gömlu höfnina, helsta túristastaðnum í borginni, enda er höfnin ekki af verri endanum; hún var endurskipulögð af einhverjum frægasta núlifandi Genóabúanum, Renzo Piano, arkitekt, sem m.a. hannaði Pompidour safnið í París, en ætli frægasti Genóabúinn fyrr og síðar verði ekki að teljast Paganini. (Á maður sem Íslendingur nokkuð að þora að minnast á Kristófer Kólumbus?!?)

Ég hafði nú reyndar ekki komið við þar í þó nokkur ár þegar vinur minn stakk upp á því að við Halli skelltum okkur þangað að fá okkur alvöru sjávarrétti. Við röltum niður eftir af Piazza de Ferrari, með stuttri viðkomu á Piazza delle Erbe til að fá okkur fordrykk úti í janúarsvalanum núna 30. janúar síðastliðinn rétt fyrir kvöldmat. Við röltum niður eftir í myrkrinu um níu-leytið - það er oft betra að vera með seinna fallinu, sérstaklega ef maður á ekki pantað borð. Da Vittorio er áberandi staður niðri við höfnina; þrátt fyrir að vera í falinn í súlnagöngunum, þá þekkir maður hann af rauðu neonljósunum. Þarna er mest spennandi glugginn af öllum verslunum í götunni - alla vega fyrir matgæðinga - og það þrátt fyrir að það séu í það minnsta 2-3 fisksalar þarna í nágrenninu. Það er ekki til fallegri gluggi en yfirfullur gluggi af ógrynni öllu af skelfiski, humar, krabba, rækju, leturhumar, kolkrabba og í raun hverju því sem hugurinn girnist af sjávarfangi.

Við fengum borð í efri salnum. Yfirbragðið er svona eins og góð káeta á gamalli og góðri skonnortu af stærri gerðinni. Það er frekar bjart inni og allt er sveipað gulu, borðdúkar, veggfóður, tauservíettur. Reyndar býður Vittorio upp á stálhnífapör, en staðurinn er ekki í dýrari kantinum, þrátt fyrir að vera óneitanlega lengst úti á betri kantinum.

Ég byrjaði á ostrunum - eitthvað sem er nauðsynlegt þegar maður kíkir við! - Ég mundi að það var einmitt á þessum stað fyrir einhverjum 8 árum síðan, sem ég kynnti bróður minn og ostrur í fyrstaostrur_davittorio sinn. Hann trúði varla sínum eigin bragðlaukum, og ef ég man rétt, þá þurfti ég að gefa honum eftir restina af ostrunum á mínum diski. Ostrur er eitthvað, sem maður nýtur alltaf að borða. Það var líka langt síðan ég hafði fengið mér ekta hlýsjávarostrur, en síðast hafði ég bragðað á afbragðs Limafjörðsostrum á Peder Oxe í Kaupmannahöfn fyrir jólin, auk þess, sem ég smakkaði þessar fínu ostrur frá Skotlandi, þegar ég leit við hjá Kjartani M. Kjartans upp á Vín og skel fyrir um ári síðan - eitthvað til að mæla með! Ostrurnar á Vín og skel, sem og á Peder Oxe, komu á ís með lime, hjá Vittorio vor þær með sítrónu og salatblaði. Afskaplega góðar. Halli fékk sér blandaðan fisk með sítrónumarineringu og salati, marinato misto di pesce. 

leturhumar_davittorioÍ aðalrétt fengum við okkur annars vegar leturhumar (Scampi) með sítrónu og salati og svo grillblöndu, vel glóðaðan fisk á opnum eld; leturhumar, risarækjur, sverðfiskur, smokkur, kolkrabbi og fleira. Vel sterkt grillbragð fyrir þá sem líkar það - það virðist víst eftirsótt hjá sumum, en ég var ekki of hrifinn - hefði frekar átt að fá þetta af pönnu! Með matnum pöntuðum við okkur eina sódavatn og svo eitt af mínum uppáhalds vínum á svæðinu, Gavi di Gavi. Það fer alltaf vel með sjávarréttum - og, já, ætli það sé ekki bara mest selda vínið á staðnum! Þar sem við komum frekar seint, þá sáum við vart ástæðu til að sitja of lengi - fólkið var farið að týnast út þegar við pöntuðum okkur kaffi og "koníak" (ítalskt brandý) og röltum svo út í myrkrið. Fyrir þetta greiddum við 95 evrur - og töldum frekar vel sloppið!

Vittorio er staður, sem ég heimsæki gjarnan þegar ég á leið um Genova - sá staður og sushi staðurinn, sem er þarna rétt hjá eru svona fastir liðir, auk þess sem ágætt getur verið að kíkja á Tre Merli, sem er á nokkrum stöðum í bænum, m.a. niðri við höfn.

zeffirinoHins vegar er Zeffirino staðurinn, sem maður ætti að stefna á, ef maður er á leiðinni til Genova (Zeffirino, via XX Settembre 20, símar: +39 010 591990 / +39 010 5705939 / +39 010 5958738)  - þar hef ég nú bara borðað einu sinni (fyrir 8 árum síðan) - en það var ógleymanlegt. Staðurinn rekur sögu sína óslitna til kokks konungsins í Verona fyrr á öldum, og Zeffirino var löngum eftirlætisstaður Frank Sinatra, sem m.a. er verndari staðarins. Fyrsta útibú Zeffirino (f. utan upprunalega staðinn í Genova) var svo opnaður í Las Vegas fyrir nokkrum árum síðan - þar að auki hafa bættst við útibú í Hong Kong og Portofino. Ætli hann sé ekki með fyrstu háklassaveitingastöðunum, sem kemst nálægt því að verða að keðju. Við rétt löbbuðum framhjá og ég gat ekki stillt mig um að taka mynd af skiltinu yfir götuna þar sem við vorum á leiðinni í hádegismat á enn einn staðinn, sem bauð upp á gómsætar kræsingar.

Buon appetito!


Food & Fun : Kai Kallio!?!

Finninn Kai Kllio fagnar sigri ásamt öðrum gestakokkum.Já, stundum er það svo þegar maður fylgist of vel með einhverjum ákveðnum og telur sig hafa eitthvert vit á hlutunum, þá fer eitthvað framhjá manni . . . 

Ég verð að viðurkenna að ég var ekki búinn að fylgjast mikið með Finnanum í gær, ég rölti framhjá honum nokkrum sinnum, en var lítið að fylgjast með honum sérstaklega.

Það voru nokkrir, sem ég fylgdist vel með og ég var að veðja á ákveðna keppendur - enginn þeirra sigraði hins vegar í keppninni . . . Ég fylgdist sérstaklega vel með Svíanum Henrik Bernvik, Frakkanum Alex Gauthier og Hollendingnum Pierre Wind - auk þess sem ég fylgdist með Riccardo Benvenuti, sem ég náði að kynnast ágætlega meðan á hátíðinni stóð, Robert Gadsby og Andrew Evans frá Bandaríkjunum.

Henrik Bernvik er mikill kokkur - klassískur og metnaðargjarn. Það var gaman að fylgjast með honum vinna og hann er eins og maður segir "pro." Tengsl hans og - ja, kannski bara það að hann var á sama bás og Tine í fyrra - hefði átt að geta skilað honum nokkrum stigum.

Alex Gauthier - fylgdist aðeins með honum. Franskur út í fingurgóma með smá dassi af El Bulli . . . jú, og kannski aðeins meira. E.t.v. hefur það eitthvað staðið í kokkunum þegar þeir fóru að dæma.

Pierre Wind - þegar maður hugsar út í það, þá hefði hann e.t.v. átt skilið að verða sigurvegarinn - hann lagði á sig ótrúlegustu hluti fyrir keppnina og var með mjög skemmtilega "installasjón" - þ.e. sköpunarverk hans voru listaverk (kem þó að eftirrétti finnans á eftir). Forrétturinn var mjög skemmtilegur og vel upp settur - og hráefnið, það var ekki af verri endanum. Hann lagði það á sig að leita alla leið upp að Geysi til að verða sér úti um rétta rúgbrauðið, hann rannsakaði íslenskan harðfisk, hann kíkti á þorrablót - hann gerði í raun og veru nákvæmlega það, sem við óskum eftir að kokkarnir geri á hátíðinni - rannsaki íslenskar afurðir og hráefni og kynni svo fyrir okkur niðurstöður sínar í samhljómi við bragðskyn þeirra. - Ég smakkaði nú ekki af réttunum hans, en ég vona að þeir hafi verið bragðgóðir. Eftirrétturinn hans var auk þess ákaflega fallegur að sjá, svartgljándi epli, fyllt með marzipani, súkkulaði og lakkrís (ef ég man rétt) og svo var það hjúpað gljáandi lakkrís (held ég). Ótrúlegt!

Það, sem ég sá sérstaklega frá Finnanum hins vegar, var eftirrétturinn. Skemmtileg framsetning, hann var borinn fram í spiladós, lítilli skartgripaöskju með einhverri múmínálfunni sem stóð efst og minnti helst á flóðhest í ballett. Flott framsetning. Miðað við það, hins vegar, að hann sigraði ekki í neinum flokki öðrum en að vinna heildarkeppnina, þá hlýtur maturinn hjá honum að hafa verið góður.

Riccardo var ekki ánægður með frammistöðu sína í gær, honum þótti hann hafa getað gert betur með aðalréttinn. Einhver misskilningur með tímann varð til þess að hann fór að flýta sér aðeins til að vera innan tímamarkanna og það var ekki fyrr en seint (kannski of seint?) að tilkynnt var að dómararnir væru ekki svo strangir á tímamörkunum. Hann gerði fallegan forrétt, sem mér skilst að hann ætli að bjóða upp á á veitingastaðnum sínum á Ítalíu (www.nonsoche.com) og svo var hann með lamb með aspas og trufflum. 

Forréttinn hjá Gadsby og eftirréttinn hjá Clime skoðaði ég ekkert sérstaklega, þeir stóðu þarna á borðinu þegar maður leit yfir heildina frá öllum keppendunum, en þeir unnu hvor um sig sinn þáttinn, þ.e. besta fiskforréttinn og besta eftirréttinn. Fyrir besta aðalréttinn hlaut Vikram Greg verðlaun, en hann virðist vinna á einhverjum krossgötum franskrar og indverskrar matargerðar. Það ætti þá að kenna okkur, að möguleikarnir opnast heldur betur fyrir hráefnið okkar! 

Það var gaman að sjá hvað margir gáfu sér tíma til að líta við, og ekki spillti það fyrir að kokkarnir gáfu reglulega smakk af öllu því góðgæti, sem þeir voru að gera.

Gefið var 70% fyrir bragð og þá hljóta 30% að hafa verið fyrir framsetningu, annars var ekki kynnt sérstaklega hvernig stigin yrðu gefin eða reiknuð út.

Það hefði í raun átt að veita sér verðlaun fyrir framsetningu, listsköpunin í gær í Hafnarhúsinu var slík, að keppnin er með réttu haldin í Listasafninu! 

Takk fyrir mig! - (Ég hlakka bara til F&F:2008!)


mbl.is Kai Kallio fór með sigur af hólmi í matreiðslukeppni Food and Fun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Food & Fun :: Salt :: Pierre Wind

Food & Fun Jæja . . . Úff, hvar á maður að byrja eftir gærkvöldið. - Alla vega var stefnan tekin á Salt, það náðist loks sammæli um það eftir að hafa farið yfir matseðlana á hátíðinni, lesið þá yfir og hlýtt fólki yfir um efni þeirra . . . Hollendingurinn fljúgandi (og, já, hann var sko fljúgandi! - a.m.k. var hann frekar líflegur!) - Pierre Wind (Sjá nánari uppl. á heimasíðu F&F.) Stefnan var sett á hálf átta, svo það var ágætt að vera kominn aðeins í tíma og setjast niður á barnum á Salt og fá sér fordrykk.

Salt er svolítið sérstakur staður. Ég hef nokkrum sinnum litið þar við - í mat - en oftar inn á barinn,Salt - barinn þar sem er ágætt að sitja og smakka á smáréttunum, fá sér kaffi eða kíkja við um helgar - ábyggilega einn af fáu rólegu börunum í bænum - eða var það a.m.k. Salt kemur manni oft fyrir sjónir eins og kaldur staður - allur þessi mínamilismi, hvítir, svartir og aðallega gráir tónar, háir og opnir gluggar - reyndar er lítið við þá að athuga annað en umhverfið eins og það lítur út um þessar mundir, það má gera ráð fyrir að þetta breytist svo um  munar þegar tónlistarhöllin verður risin og búið að ganga frá öllu öðru umhverfi - undarlegar gardínur, lítið eldhús og endalaust bergmál og skvaldur. Lýsingin pirrar mig líka eitthvað. (Ok, nú hljóma ég eins og ég vilji bara einhverjar kertaljósakræsingar. . .) Það er skemmtilegt við staðinn hvað hvert rými nýtur sín eins og það sé afmarkaður salur: stóra rýmið fyrir framan eldhúsið, gangurinn inn í baksalinn og svo baksalurinn. Og hingað til hefur, ja, alla vega hádegismatseðillinn ekki svikið mig neitt sérstaklega. Salt hefur líka tekið sína afstöðu til væntanlegs reykingabanns, en hann vill venja kúnnana við það, sem koma skal.

Salt - salurinnÞetta kalda andlit staðarins fór hins vegar fram hjá mér í gærkvöld. Það var töluverð eftirvænting í loftinu, þó einna helst eftir lakkríssúpunni, sem var í millirétt. Hvernig í ósköpunum ætlaði hann að gera lakkríssúpu? - þykka? - þunna? - úr soði? og hvað mundi hann nota?

Við fengum borð í aftari salnum. Ég rakst á frændfólk mitt á leiðinni inn og auðvitað spurðum við eins og sannir Íslendingar hvað við værum nú að gera þarna. Ég svaraði því til, vitandi að það væri aðeins eitt að gera á þessum stað og á þessum tíma, að ég væri á leiðinni á skautaæfingu í bakherberginu. (Þetta var vonandi í síðasta skipti, sem ég reyni að nota slíka brandara.) - Á borðinu var búið að sérprenta bækling fyrir hátíðina. Kynning á kokkinu á fyrstu síðu, svo vín og matur á þeim næstu.

Seðillinn var einhvern veginn svona:

  - Fordrykkur: Val á milli Food&Fun Reykja Lagoon (1.200,- kr., líklegast kokteill í tilefni hátíðarinnar) og svo flösku af Moët & Chandon Brut (7.900,- kr.)

(Ég hafði nú bara ekki séð þennan lista þegar ég strunsaði beint inn á barinn rétt fyrir hálf átta og fékk mér Campari-Soda.)

 - Vínlistinn var ágætur: Castillo de Molina (Chile, hvítt: Sauv. Blanc 4.400,- kr.; rautt: Cab. Sauv. 4.400,- kr.), Penfolds (Ástralía, hvítt: (Rawsons) Semillion Chard. 4.200,- kr.; rautt: (Koonunga Hill) Shiraz 4.500,- kr.), Beringer Stone Cellars (Kalif., hvítt: Chard. 6.300,- kr.; rautt: Zinfandel 5.400,-), og svo Masi (Ít., hvítt: (Masianco) Pinto Grigio & Verduzzo 5.100,- kr.; rautt: Amarone Classico 7.400,- kr.)

- Hins vegar var einnig boðið upp á sérstakan lista, þar sem búið var að sérvelja vínin fyrir hvern rétt: spænskt Cava (mér sýndist glitta í Faustino), og Torres, Fransola 2004 voru alla vega á listanum, eitthvert eitt vín í viðbót, svo Tópasskot, kaffi og með því (konni og/eða grand). Þessi sérvaldi seðill með matnum var á 4.900,- kr.

Það vildi nú svo til að þjónninn var alveg einstaklega skemmtilegur og góður, sænskur, Johnny Österberg. Ég spjallaði aðeins við hann og leist ekkert á eitthvert Tópasskot og þvíumlíkt. Hann útvegaði þá nokkur glös af Cava af sérvalda seðlinum, með forréttinum, og flösku af Torres - Fransola. Ég held allir hafi verið ánægðir með sinn hlut. Freyðivínið var einstaklega gott og hressandi. Hvítvínið var hins vegar frekar sérstakt, en mjög gott. Ætli ég láti það ekki bara vera að lýsa nefinu - þeir skilja, sem þekkja . . .

Matseðillinn:

1. Forr.: Sandhverfu- og skelfiskssaté með papriku, agúrku og salthnetudressingu.

2. Millir.: Kjúklingarúllur litaðar með kolkrabbableki og lakkríssúpa með eikarkeim.

3. Aðalr.: Þykkvalúra, vafin um parmaskinku með steinseljurót, villtum sveppum og Madeira sósu.

4. Ískrap með súrkáli í stökku koníaksformi með rauðum ávöxtum, súkkulaði og íslensku kexi.

Þetta hljómaði svolítið spennandi: lakkrís og súrkál?!?!? - ekki eitthvað, sem maður er vanur - (hefði hugsanlega getað passað í einhverja svarthvíta, austur-þýska heimildarmynd frá 1964).

Forrétturinn kom á borðið. Djúpur diskur með þremur pinnum (eða svona "sticks") raðað í friðarmerkið, sósan, agúrkan og paprikan (niðurskorin í litla teninga - Benriner?) voru á botninum, fiskurinn sat ofan á og efst var búið að setja góða og græna froðu, sem lá yfir öllu saman. (Það er greinilegt að Ferran Adriá og froðugerð hefur gert sig heimakomna í eldhúsinu á Saltinu: agúrka, sítróna, kóríander, mynta, engifer - allt kalt - töfrasproti og lecite. - Guð hvað maður öfundar El Bulli, og ég sem reyndi svo mikið að komast þar að á þessu ári . . . *sniff*) Virkilega góður réttur. Froðan var sérstaklega eftirminnileg, fiskurinn einstaklega góður og ég heyrði að einhver hefði helst viljað fá sósuna sem súpu! Sætur og brabðmikill keimur, gott mótvægi við fiskinn.

Svo kom millirétturinn. Þjónninn kom með litlar skálar með kjúklingnum og grænmeti, sem var búið að "strimla niður" og svo stóðu hvítir angar upp úr skálinni - hef ekki hugmynd hvað var notað í það, en mig grunaði einhvers konar "oblátur." :) - Eftir að búið var að bera skálarnar á borðið og maður kíkti á hvað væri nú í botninum, þá kom annar þjónn með tekönnu og hellti út í skálina. Svört lakkríssúpan huldi kjúklinginn. Jú, þetta virkaði: kolkrabbinn, sem sprautar frá sér bleki til að fela sig. Svo var bara að vita hvort blekið væri eitrað. Þetta var svolítið sérstakt að sjá, svört súpa og svo hvítir angar upp úr henni að teygja sig til manns... Hvað var undir? Lakkríssúpan var byggð á soði, samt nægilega svört. Uppistaðan var íslenskur lakkrís, anís og svo . . . já, Turkish Pepper -> Hot'n'sweet súpa! Hvílíkt hugmyndaflug! - Súpan var ágæt - sumum fannst hún einum of . . . Ég sættist hins vegar vel við hana þegar ég bragðaði á kjúklingnum, sem náði vel að ná í gegnum súpuna, sem var í senn gott soð, sterk, sæt og bragðmikil. Kjúklingurinn skildi líka eftir sig gott eftirbragð - hefði viljað fá meira af honum!

Þykkvalúran var e.t.v. ekki eins mikið ris og búast hefði mátt við miðað við forleikinn. Kannski var lakkríssúpan svo mikil tuska í andlitið að maður bjóst við einhverju enn meiru - hefði hún ekki verið, hefði seðillinn getað verið nokkuð klassískur og sómað sér vel (fyrir utan sérstakan desertinn!). Þess vegna ákvað ég að taka súpunni bara sem sérstöku innslagi, sem kom verulega á óvart í stað þess að láta hana byggja upp aðra heildarmynd. Þykkvalúran var ágæt, saltið úr skinkunni skilaði sér hins vegar ekki nægilega í fiskinn, en það var skemmtileg hugmynd að hafa olíur á borðunum og pensla til að pensla fiskinn með - olía með rósmarín og myntu, olíu með spænskum pipar og hvítlauksolía. Madeirasósan var góð, en mild. Graskersrönd lá þvert yfir diskinn og svo var steinseljurótarfroða til hliðar. villtu sveppirnir voru hins vegar ómissandi - ég fæ bara vatn í munninn við að hugsa til þeirra - smjörsteiktir í hvítlauk og graslauk, enn hálfstökkir og virkilega góðir. Ofan á þá var lögð að mér virtist stökk parmaskinka, sem molnaði við snertingu - hálfgerður bras-beikon keimur af henni.  

Pierre Wind Á eftir aðalréttinum kom hann askvaðandi inn í salinn og vann sig inn eftir ganginum, kom við á hverju borði og brá á leik með öllum. Hann var vægast sagt MJÖG lifandi. Hann rölti um með svakalegt belti með öllum eldhúsáhöldunum og var reiðubúinn í allt. Sjónvarpið fylgdi honum eftir, og þegar ég spjallaði við upptökumanninn, þá sögðu þeir að þetta væri besta myndefnið, enda er maðurinn vanur sjónvarpskokkur og mjög opinn og hress. Hann lék með eldhúsáhöldin eins og kung fu meistari og það var ljóst að þarna var mættur í senn töframaður, listakokkur og brjálæðingur - enda hló hann við og lék sér með svörin við spurningunum mínum, sem m.a. snerust um það hvað hann ætlaði að gera af sér á laugardaginn og hvort hann væri búinn að kíkja á einhver íslensk hráefni til að vinna með. Hann ljóstraði upp leyndarmálinu um desertinn, en hann sagðist ætla að .......................

Og talandi um eftirrétti, þá var þessi, sem við fengum í gær frekar eftirminnilegur. Ískrap, rúsínur, sesamfræ, súkkulaði og súrkál (af öllum hlutum!) - öllu ægði saman í litlu brauðformi á fallega skreyttum diski með rjóma, hindberjum, brómberjum, jarðarberjum, kexi og rjóma. Ofan á öllu saman var stökkt basillauf. Ótrúleg samsetning, en bragðið var alveg magnað. Það var í raun hægt að finna bragð af hverju sem var! - Maður gat liggur við valið um það hvaða bragð væri dómínerandi. Virkilega skemmtilegur réttur, sem væri gaman að smakka aftur. Brauðformið hefði hins vegar mátt missa sín. Einhverjum þótti þetta skemmtileg og nýstárleg tilbreytni við að nota brauðformið. Ég gerði nú bara það sama og ég held að ég hafi alltaf gert, þegar ég hef fengið brauðfom: skildi það eftir óáreitt . . .

Þetta var sannarlega gott kvöld og eftirminnilegt. Reyndar var ekki fullt á staðnum, en þjónninn sagði að það væri alveg brjálað um helgina.

Síðar um kvöldið rakst ég á alla halarófuna af kokkunum öllum af F&F, þar sem þeir brugðu sér út til að dreypa á rauðvínssopa og átti þar skemmtilegt og gott samtal við Riccardo Benvenuti, sem er að kokka á La Primavera, og heilsaði aðeins upp á Robert Gadsby, sem er hjá Sigga Hall.

Mig grunar að það sé skemmtileg helgi í vændum . . .


Al Pappagallo - Bologna

Ég brá mér í  nokkra daga með Halla vini mínum til Ítalíu nú um daginn. Við höfðum setið sveittir við lestur inni á bókasafni lagadeildar Kaupmannahafnarháskóla í nokkra daga og brugðum okkur svo til Ítalíu í skemmti- og skoðunarferð. Ég hafði fundið svo ódýra miða á netinu, að ég ákvað að bjóða Halla með í nokkra daga að sýna honum "heimahagana" og kenna honum nú að borða!

Við lögðum af stað á sunnudeginum 28da janúar frá Hovedbanegården áleiðis til Vejle á Jótlandi, en þar áttum við að taka svo rútu upp á flugvöllinn í Billund. Við vorum frekar snemma á ferðinni, lestin var komin til Vejle um þrjúleytið, en við áttum ekki að vera komnir út á flugvöll fyrr en um sjöleytið (vélin átti að fara hálf níu), svo við spurðumst fyrir hvað hægt væri að gera í Vejle í nokkra tíma. Konan á upplýsingamiðstöðinni við rútubílastöðina upplýsti okkur um það, að hún væri nú bara frá Kolding og vissi lítið um Vejle, svo hún kallaði á vinkonu sína, sem sat fyrir innan, og spurði hvað túristar gætu gert í Vejle á sunnudagseftirmiðdegi. Svarið kom um hæl: Ekkert!

Við röltum samt niður í bæ og reyndum að finna kaffihús, en enduðum auðvitað inni á svona "subbupöbb," sem var opinn. Þar reyndum við að skipuleggja ferðina og skoluðum niður nokkrum Tuborg í leiðinni.

Ferðaplanið var einfalt: Billund -> Pisa -> Flórens -> Bologna -> Genova -> Pisa -> Billund. Fyrir flugmiðann hafði ég borgað eina evru; fyrir okkur báða fram og til baka kostuðu miðarnir samanlagt rétt rúmar 3.000,- kr. íslenskar, en hængurinn var sá að fljúga frá Billund, en miðinn með lestinni aðra leiðina kostaði rúmar 3.000,- kr. á mann. Spurning um sparnaðinn þar!

Við komum á flugvöllinn í tíma, en seinkun var á vélinni. Svo þá var ráðist í steik, franskar og bjór á flugvellinum og svo lagt í hann.

Í Pisa gerðum við lítið en að koma okkur fyrir á hótelinu, reyna að finna opinn matsölustað um miðnætti - sem auðvitað gekk ekki eftir - svo úr varð að fá sér einn öl með nokkrum pólverjum á bar rétt hjá lestarstöðinni. Svo var haldið í háttinn.

Kræsingar í FlórensEftir að hafa tekið daginn snemma, skoðað turninn og rölt um bæinn, fórum viðSjávarréttasalatið til Flórens. Röltum þar um í svolítinn tíma og kíktum á það helsta, en rákumst á fallegt barborð, yfirfullt af kræsingum á litlum stað, þar sem við fengum okkur sjávarréttasalat og kvartlíter af hvítvíni og hálfa sódavatn.

Svo var haldið til baka á lestarstöðina og haldið til Bologna. Komum frekar seint, fundum hótelið,  (Hotel Holiday, via Bertiera 13) þetta fína hótel, sem við rákumst á á netinu fyrr um daginn og fengum fyrir spottprís. Það var reyndar í óupplýstu skuggasundi, en var niðri í miðbænum og var þriggja stjörnu - og miðað við mína reynslu af svokölluðum þriggja stjörnu hótelum á Ítalíu, þá stóð þetta meira en vel undir væntingum!

Svo hófst veislan!

Ég var búinn að tala um aperitivo við Halla, sem ég þyrfti að kynna fyrir honum. Á Ítalíu þykir nefnilega fínt að drekka vín, en ósiður að vera fullur. Þess vegna er til þessi skemmtilega afsökun, að vertinn hjálpar manni að líta ekki illa út þegar maður pantar sér áfengan drykk á börunum, að hann býður manni alltaf eitthvað til að maula á á meðan, m.a.s. er varla til svo slæmur "bjórpöbb" að ekki fylgi a.m.k. snakk, hnetur eða popp með bjórnum! Áfengi er nefnilega ekki drukkið nema með mat! - Við fundum okkur "fínni" stað og pöntuðum okkur tvo Campari-Soda. Halli trúði varla sínum eigin augum, þegar þjónninn kom og ætlaði aldrei að hætta að færa okkur kræsingar til að snæða á með nokkrum sentilítrum af Campari-Soda. Við fengum ólífur, alls kyns brauðmeti, samlokur með bresaola og fleira góðgæti. Halli naut nú góðs af því og talaði um að þetta væri besti matur sem hann hefði smakkað . . . Ég hló við og sagði þetta bara vera svona smárétti með fordrykknum. Halli, sem er sjaldnast hrifinn af uppáhaldsfordrykknum mínum, kláraði hann nú ásamt því að klára alla diskana, sem við fengum á borð til okkar - og svo spurði hann hvort við fengjum meira ef við pöntuðum annan drykk!

Ég stakk upp á því að kíkja á annan stað, það væri sjaldan til siðs að drekka of mikið af fordrykkjum á sama staðnum, jú, kannski tvo. (Ég hafði nú reyndar stundað það að kíkja á barina og fá mér fordrykk og allt sem honum fylgir og láta það duga sem kvöldmat, þegar ég bjó þarna. En það er önnur saga . . . ) Við kíktum á annan stað, Campari-Soda og Martini Bianco. Sama sagan, ólífur, brauðmeti, skinka og fleira góðgæti fylgdi með.

Hugmyndin var að fara með Halla og kynna hann fyrir alvöru mat í Bologna. Ég leitaði uppi stað, sem ég fór á fyrir nokkrum árum, en honum virtist hafa verið lokað. Þá ætluðum við að kíkja við hjá Gianni (Da Gianni, via Clavature 18), en það var lokað. (Flestir veitingastaðir - já og önnur fyrirtæki - hafa jafnan einn dag í viku, sem lokað er. Það gildir þó ekki um alla túristastaði eða staði, sem eru í alfaraleið túrista.) Hjá Gianni er nefnilega hægt að fá prýðisgóðan mat, dæmigerðan fyrir héraðið og er hann vel rómaður.

Svo við enduðum á Pappagallo, enda höfðum við rölt fram hjá honum nokkrum sinnum fyrr um kvöldið og velt fyrir okkur matseðlinum.  

PapagalloAl Pappagallo (Piazza della Mercanzia 3, sími: +39 051 232807) er sögufrægur staður í Bologna, stofnaður 1919 (rekur söguna þó til 1903) og er í einni af eldri byggingum borgarinnar í gamla miðbænum, en húsið var byggt á 14du öld. Staðurinn er einn af fínni stöðunum í borginni og lifir á fornri frægð. Hann heldur uppi merkjum klassískrar emilíanskrar matargerðar, en er líka framsækinn í þróun. Þegar við komum inn tók á móti okkur ungur þjónn, sem bauðst til að taka af okkur yfirhafnir, en við ákváðum að halda þeim. Staðurinn er bjartur yfirlitum og hátt til lofts, okkur var boðið upp í efri salinn, sem er skreyttur gömlu eldhúsáhöldunum, eir- og koparpottum og pönnum, við annan endann á salnum og ljósin eru þessar fallegu kristalsljósakrónur, sem maður þekkir yfirleitt bara úr kvikmyndum. Salurinn var allur skreyttur árituðum myndum af frægu fólki, leikurum, stjórnmálamönnum og öðrum frammámönnum, sem mærðu staðinn. Ég sá glitta í gamla mynd af Sophiu Loren á sínum gullaldarárum og aðra nær okkur í tíma af Lech Walesa. Í hinum endanum var svo dýrindis spegill, sem stækkaði salinn enn meira, en lofthæðin var vel yfir 3-4 metra. Á borðunum voru körfur á hverju borði fylltar ávöxtum, appelsínur á einu borðinu, græn vínber á öðru, blá vínber á því þriðja, rauðar paprikr á því fjórða o.s.frv. Skemmtilegar skreytingar. Borðbúnaðurinn var heldur ekki af verri endanum. Ef mér sýndist rétt voru silfurhnífapörin sérhönnuð fyrir staðinn, þykkar og góðar tauservíettur og alvöru kristall undir drykki. 

Yfirþjónninn kom og kynnti sérrétt kvöldsins - einn af sérréttum staðarins - en við afþökkuðum. Við litum heldur á matseðilinn, enda var hugmyndin að leyfa Halla bragða á lasagna. Einn af höfuðréttum staðarins, Lasagne verdi "Pappagallo," var einmitt á seðlinum. (Í bókunum hafa þeir reyndar jafnan haft Lasagne gialle, en ástæðuna fyrir spínatinu nú á dögum þekki ég ekki.) Í forrétt pöntuðum við blandað kjöt, prosciutto, mortadella, salame og annað klassískt borið fram með brauðkoddum (15 evrur). Það var svona la la - eitthvað, sem maður hefði getað keypt sér hjá næsta kjötsala og látið hann skera niður fyrir mann. Vín hússins var frá Friuli, en við tókum hálfa af Pinot Grigio (annað húsvín) og vatn, sem var borið fram í kristalsflösku. Staðurinn stærir sig reyndar af úrvals vínlista og hefur vel yfir 200 tegundir af ítölskum vínum, m.a. mörgum mjög góðum, sem maður þekkti. Ég held ég hafi móðgað þjóninn við að velja ekki af listanum . . . 

Halli fékk sér lasagne verdi "pappagallo" og þótti sérstakt að borða ítalskt lasagna, og fannst það ólíkt því, sem hann þekkti af "vesturlöndum." Mig grunaði að kjötið væri hreint mjólkurkálfakjöt, mjúkt og meyrt og bráðnaði á tungunni. Annars hefðbundið.

Ég fékk mér túnfisk á þrjá vegu (22 evrur). Þjónninn benti mér á í hvaða röð ég ætti að borða hann. Diskurinn var skemmtilega skreyttur, þrír réttir lagðir á diskinn til að mynda þríhyrning með eina útfærsluna í skál, það var túnfisks-sashimi og átti að borða síðast (skiljanlega, enda var lítill wasabi nabbi á kantinum!). Ég byrjaði á túnfisks-carpaccio með trufflum, örlítið volgt, olía og salt. Afskaplega mildur og góður. (Hann var hrár, en ekki eins og túnfisks-carpaccio-ið, sem maður rekst svo oft á með reyktum túnfisk, en ég var vanur að borða slíkt á Gaia, veitingastað í Genova, sem ég fór oft á í hádeginu að borða carpaccio með reyktum túnfisk og sverðfisk, þegar ég bjó þar - fyrsta mánuðinn eftir að ég flutti út, var fólkið á staðnum farið að þekkja mig þar, enda pantaði ég stundum tvöfaldan eða þrefaldan skammt af þeim "forrétti.") Svo var léttsteiktur túnfiskur, bleikrauður í miðjunni með klassískri ítalskri grænni sósu. (Sama sósan og borin er fram með soðinni hænu - enn einum prýðisgóðum ítölskum rétti!) Túnfiskurinn sat á grænmetisbeði með baunaspírum og rauðri piparrót (sterkri!). Hann var mjög góður. Svo var sashimið, sem var heldur betur sérstakt. Hrár túnfiskur, spínatvafinn og stunginn með rækju. Spínatið var líklegast linað í vatnsbaði og svo vafið um hráan fiskinn rétt áður en hann var borinn fram. Túnfiskurinn var vel hrár í miðjunni, en örlítið byrjaður að bleikjast á jöðrunum, þar sem volgu spínatinu var vafið um hann. Hann var í skál með svolítilli soya sósu og klípu af wasabi. Hann var sterkur en einstaklega góður, og spínathugmyndin hitti beint í mark! Þessi réttur sannaði það, að staðurinn stæði vel undir bæði klassískri og nýrri matargerð.

Milli rétta höfðum við hugsað okkur að smakka á sítrónusorbet með vodka, en tími gafst ekki til.

Þar sem við Halli ræddum um mat og veitingastaði, þá heyrði þjónninn mig minnast á Zeffirino, e.t.v. einn frægasta stað Ítalíu, en hann er aðeins á tveimur stöðum í heiminum, Genova og Las Vegas. (Ég læt umfjöllun um hann bíða um sinn, en hann er tilefni í heila bloggfærslu, enda um kraftaverk að ræða í matargerð!). Við það breyttist viðmótið hans heldur betur snögglega, hann fór að taka eftir því að ég var að krota hjá mér eitt og annað um matinn og hann fór að stjana vel við okkur, m.a.s. bauð hann upp á annan forrétt handa okkur að smakka, sem ég hafði eitthvað verið að spá í - á kostnað hússins: Sverðfiskscarpaccio með ruccola, jarðarberjum, olíu og hunangi, sinnepi, sítrónuberki og örlítilli piparrót. Virkilega góður, mjúkur og mildur forréttur. Sverðfiskurinn var í raun lungnamjúkur og ekki til að tala um að hann væri eitthvað harður á endunum eins og oft hættir til sums staðar.

Svo fékk ég mér annan aðalrétt: Önd m. fennil. Nú var þjónninn orðinn svo hrifinn af okkur, að hann óskaði eftir að fá að velja vínið: Ca´ del Bosco 2001 (Corte Franca), ljúft og gott, féll vel að öndinni. Öndin var vel útilátin, fennilbragðið skein vel í gegn og hún var stráð fennilfræjum. Sætir þurrkaðir ávextir (soðnir í sykri og vatni og þurrkaðir) fylgdu með (tómatur, pera, vínber, kokteilber og kiwi) og eftirbragðið af sósunni var sætt - einhver anískeimur af þessu öllu saman, en kannski var það bara fennillinn. Afskaplega góður og gómsætur réttur. Á eftir fengum við okkur svo kaffi og koníak (ja, eða í raun bara Emilia Romagna, ítalskt brandy). Fyrir þessa ljúfu kvöldstund greiddum við svo einar 115 evrur, en skildum nú eitthvað meira eftir til að þakka fyrir okkur.

Þrátt fyrir að gagnrýnendur telji staðinn lifa á fornri frægð, þá er vart hægt að segja annað, en að staðurinn standi vel undir nafni. Klassíkin er til staðar, en nútíminn hefur líka gert sína innreisn - og það vel af túnfisknum að dæma. Hins vegar þótti mér klysjurnar aðeins mega missa sín, þegar ég sá eftirréttinn á næsta borði - en maður er svo til alveg búinn að fá nóg af eftirréttum, ís, sósum, og soufflé borið fram í snapsglösum. Hins vegar tvímælalaust staður til að heimsækja ef maður á leið um Bologna - ég fer þangað alla vega alveg örugglega næst þegar ég á leið hjá (sem vonandi verður sem fyrst!)

Því miður er ekki svo mikið efni um staðinn á netinu, sem ekki er á ítölsku (því miður fyrir þá, sem eru ekki enn búnir að læra la lingua madre), en staðurinn var með tvær heimasíður. Önnur þeirra er nú niðri (www.emiliantavola.com), en hægt er að kynna sér meira um staðinn og sögu hans og þá helstu sérrétti, sem þar er að fá hér: http://www.alpappagallo.it.

Frá Bologna fórum við með lest daginn eftir til Genova og snæddum þar "hjá Viktori" - Da Vittorio - en það verður efni næstu færslu.

Buon appetito! 


Að snæða í myrkri.

Þetta er í raun ekki ný hugmynd, en sérstakt að þjónarnir nota nætursjónauka.

 Í raun voru fyrstu staðirnir, þar sem boðið var upp á að snæða í myrkri, reknir af og/eða þjónað til borðs af blindu fólki,  m.a. var það stjórnmálamaður í Sviss, sem setti slíkan stað af stað í Zürich, Blindu beljuna (hér er hægt að hlusta um upplifun eins, sem litið hefur við þar). Blinde Kuh (blinda beljan) er nú rekin á tveimur stöðum í Sviss, Basel og Zürich, en fyrsti staðurinn, til að bjóða upp á myrkrasnæðing var Blinda beljan í Zürich, sem var stofnuð í september 1999.

Síðan þá hefur æði sprottið af þessari reynslu, og er nú að finna slíka staði víðs vegar um heim, m.a. í Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum - og nú greinilega í Kína.

Hins vegar var upphaflega hugmyndin sú að veita blindu og sjóndöpru fólki fjölbreyttari starfsvettvang og kynna fyrir fólki hvernig blint fólk "upplifir" kvöldverðinn (að svo miklu leyti sem það er þá hægt) en ekki bara að gera þetta að tískubylgju.

 


mbl.is Kínverjar snæða á myrkvuðum veitingastað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Food & Fun - 2007

Food & FunJæja, þá er farið að líða að því! Food & Fun hátíðin verður haldin í Reykjavík í 6. skiptið 21.-24. febrúar nk. Þar er úr nógu að spila. Hvorki meira né minna en tólf veitingastaðir munu bjóða upp á sérstakan seðil kokkanna meðan á hátíðinni stendur: Apótekið, Domo (kemur nýr inn, hef ekkert litið þangað, en verð að gera miðað við hver hrærir með sleifinni í pottunum þar!), Borgin, Galleríið á Holti, Grillið, Vorið - La Primavera, Perlan, Rauðará, Salt, Sjávarkjallarinn, Siggi Hall og Vox! - Ég veit bara ekki hvernig maður á að komast yfir þetta allt saman, en ég er búinn að setja stefnuna á Silfur og Salt (þar verða Frakkinn Alex Gauthier á Silfrinu og Hollendingurinn Pierre Wind á Saltinu), auk þess sem ég kíki á Vorið (La Primavera) að smakka hjá Ítalanum Riccardo Benvenuti, enda ástfanginn af ítalskri matargerð.

Þann 24. febrúar má ekki láta sig vanta að rölta niður í Hafnarhús, þar sem keppnin verður, og vonandi verður jafn mikið um manninn og kokkarnir jafn lifandi og í fyrra, en þá myndaðist stórskemmtileg stemmning við að fylgjast með þeim fást við íslenskt hráefni - og þeir gáfu áhorfendum reglulega að smakka.

Dómararnir eru svo ekki af verri endanum - m.a. verður Mark Edwards, sem tók þátt í keppninni í fyrra (eða hitteðfyrra?), ef ég man rétt, en hann var frekar fjörugur og líflegur í framkomu þegar hann keppti í Hafnarhúsinu.

Það er hins vegar svolítið merkilegt að flestir þáttakendurnir koma vestan hafs, einungis er einn Frakki, einn Hollendingur og einn Ítali af meginlandi Evrópu, en svo eru nokkrir þátttakendur frá Norðurlöndunum. Það væri óneitanlega gaman ef hlutfallið yrði aukið á næstu árum, ef möguleiki er fyrir hendi. 

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Food & Fun hátíðarinnar: http://www.foodandfun.is.


Vietnam - Restaurant - Kaupmannahöfn

Ég brá mér til Kaupmannahafnar um daginn og var þar í nokkra daga í heimsókn hjá vinafólki mínu og m.a. brá ég mér tvisvar til að fá mér að bragða á víetnömskum mat, sem ég hef ekki mikla reynslu af - hef held ég aðeins einu sinni farið á víetnamskan stað áður, en það fyrir um 8-9 árum á Ítalíu. En hvað um það . . .

Vietnam Restaurant - Kbh.Úti við Østerport er þessi skemmtilegi víetnamski staður, Vietnam - Restaurant, á horninu á Nrd. Frihavnsgade og Østbanegade (í raun á götunni, sem liggur meðfram lestarteinunum - best er að taka S-lestina og fara út á Nordhavn stöðinni, þá stendur maður andspænis skatthúsinu, þegar gengið er niður tröppurnar og út á Østbanegade, þá er staðurinn á 2. eða 3. horninu þegar beygt er til vinstri). Mér leist í raun svo afskaplega vel á staðinn, að ég kíkti þangað tvisvar, tvo daga í röð til að bragða á matnum.

Vietnam RestaurantStaðnum er lýst sem fyrsta og elsta víetnamska veitingastaðnum í Kaupmannahöfn (stofnaður 10.05.1984). Staðurinn býr yfir frekar látlausu, rólegu og þægilegu yfirbragði og hann virðist ágætlega sóttur, sérstaklega um helgar, en í miðri viku (sérstaklega kannski um vetrartímann) er minna að gera. Starfsfólkið er afar indælt og þjónustulundin skín af því, og flestir þjónanna tala bæði dönsku og ensku (önnur tungumál voru ekki reynd í þessari ferð!). Hann er aflangur og tekur um 80 manns í sæti, skreytingarnar eru í hefðbundnum asískum stíl, þó ekki þessar rauðu hefðbundnu plastskreytingar, sem maður sér á 2/3 af öllum kínversku stöðunum í Evrópu. Þegar gengið er inn blasir við manni aflangur gangur með flestum borðanna og við endann er risastórt Vietnam Restaurantfiskabúr, sem hægt er að líta við í á leiðinni á salernið inni við endann. Í hinum endanum er svo afmarkað minna svæði með 4-6 borðum. Ágætlega er dúkað upp og eru þykkar pappírsservíettur á diskunum. Reykingar eru leyfðar á staðnum, en þrátt fyrir það virðist staðurinn einstaklega barnvænn (m.a. boðið upp á fisk eða kjúkling með frönskum fyrir börnin - ef ekki er búið að ala þau upp til að borða annað og betra!). Fólk sækir staðinn hvort heldur eitt síns liðs - sem mér fannst danirnir gera í nokkrum mæli á þeim stöðum, sem ég sótti meðan ég dvaldi þarna - eða í góðum félagsskap. Verðið spillir heldur ekki fyrir.

Saigon bjórFyrra kvöldið, sem ég leit þarna inn, settist ég niður og beið eftir sjávarréttasúpu (48.- DKR). Á meðan ég beið bragðaði ég á Saigon bjór (29.- DKR), sem er hrísgrjónabjór að nokkru leyti. Hann var frekar mildur og góður á bragðið, og úr varð að ég valdi hann með öllu því, sem ég bragðaði af staðnum. Meðan ég beið kom þjónninn með fulla skál af rækjukökum, sem voru mjög bragðmiklar og olían hafði settst vel í þær. Þær voru frekar ljúffengar og gáfu bjórnum góðan félagsskap og gerðu biðina eftir súpuna enn betri.

 

A.3 - Sjávarréttasúpa - 48.- DKR.
A.3 - SjávarréttasúpaSjávarréttasúpan var ekki beinlínis tær, heldur svona hálftær, örlítið í ætt við þær, sem maður þekkir af kínverskum veitingastöðum - þá einna helst hákarlasúpu, hvað þykktina varðar, en bragðið var þó annað. Hún var mjög bragðmikil og chilli-bragðið skein í gegn, en var þó ekkert yfirþyrmandi. Sveppir, sítrónugras, engifer, steinselja og púrra voru grænmetisuppistaðan, og af sjávarréttum var þarna kræklingur, leturhumar, smokkur og krabbi. Góð og sterk súpa með góðu og sterku eftirbragði, soðið þykkt og sterkt. Ég mæli með henni, sérstaklega á köldu kvöldi eins og þessu, sem ég var þarna, en það var einmitt nýbyrjað að snjóa og frekar kalt í lofti.

Kvöldið eftir leit ég aftur við, en þá var farið betur yfir matseðilinn. Eins og kvöldið áður pantaði ég mér Saigon bjór og fékk stuttu síðar rækjukökur til að maula með bjórnum. Þjónninn þekkti mig frá því kvöldið áður og brosti út í annað, þegar ég hristi snjókornin úr hárinu þegar ég gekk inn. Nú var ráðist í þrjá rétti: Kjúkling með karrý, hrísgrjónarétt m/kjúkling og svo froskalappir m/sítrónugrasi og fersku chili. Annar réttur var þarna með froskalöppum m/sæeyrum (e. abalone) og blönduðum sveppum (kínverskum/frönskum), en hann verður að bíða næstu ferðar.

Þrátt fyrir að víetnamar séu vel að sér í meðferð sjávarrétta og ýmissa fiskrétta varð kjúklingurinn af einhverri ástæðu fyrir valinu. Froskalappirnar eru svo eitt af þessum ómissandi réttum, sem maður verður að geta bragðað á öðru hvoru - svona eins og hákarlasúpa! - ja, hvenær sem tækifæri gefst til! Súpan frá kvöldinu áður fékk svo að fylgja með á nýjan leik . . .

13. - Kjúklingur í karrý - 95.- DKR.
13 - Kjúklingur í karrýKjúklingurinn var í kókosmjólk, sem var vel bragðbætt með karrý (svona meðalsterkur réttur), sítrónugras og lauf, bambus, ananas og cashew hnetur. Frekar góður og bragðmikill réttur, en e.t.v. hefði mátt velja einhvern fiskréttinn í staðinn.

39. - Hrísgrjón með kjúklingi - 82.- DKR.
Uppfyllingarefni. Rétturinn er seldur sem aðalréttur, en dugar vel fyrir 2-3 sem aukadiskur af hrísgrjónum - blönduðum þó. Afskaplega mildur réttur, steikt hvít hrísgrjón með blönduðu grænmeti (baunaspírur, grænar baunir, gulrætur, soja) og svolitlu af kjúkling - ekki svo að skilja, að ekki hafi verið veitt vel af kjúklingnum í réttinn, en þetta er bara einn af þessum hefðbundnu hrísgrjónaréttum, þar sem aðaláherslan verður á hrísgrjónin, og þrátt fyrir að þeim sé blandað við grænmeti og kjúkling, þá hefur það lítil áhrif á hlutleysi hrísgrjónanna, sem halda öllu mildu og í, ja, óþægilegu jafnvægi. 

33. - Froskalappir - 125.- DKR.
Froskalappir m. sítrónugrasi og fersku chiliTvímælalaust réttur kvöldsins! Froskalappir, steiktar á pönnu með miklum lauk, sem hefur verið svissaður vel í olíu og chili áður en leggjunum hefur verið skellt út á, og steikt með ferskum, og nýskornum, rauðum chili. Virkilega bragðmikill réttur og sterkur! Það var afskaplega gaman að sjá hve froskalappirnar voru matarmiklar, yfirleitt þegar ég hef fengið mér froskalappir á austurlenskum stöðum í Evrópu hafa þetta jafnan verið sömu litlu grönnu spóaleggirnir, sem lítið kjöt hefur verið á. En hér var um annað að ræða, vel þykkir vöðvar á lærum og kálfum, löðrandi í sterkri olíunni. Strax eftir fyrsta bitann, þá fékk maður vatn í munninn við að stara á diskinn. Hins vegar rann bjórinn niður hraðar en ella, enda um rétt í sterkari kantinum að ræða.

Fyrir allt þetta, súpuna, kjúkling í karrý, hrísgrjónaréttinn og froskalappirnar, jú, og tvo Saigon bjóra, greiðir maður 408.- DKR. - en hafa verður í huga, að þessi matur getur vel dugað fyrir 3 - jafnvel fjóra. Svo er gott að hafa í huga, að staðurinn veitir 15% afslátt af matseðli, ef tekið er með heim!

Tvímælalaust staður til að heimsækja. Ég hlakka til næst! - en þá verður lögð áhersla á sjávarréttina og reynt að líta á vínseðilinn. Staðurinn er með heimasíðu, þar sem hægt er að líta á matseðilinn og verðið, og svo fylgja myndir af helstu réttunum. Slóðin er: http://www.viet.dk.

Verði ykkur að góðu! 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband